Þrír leikir fóru fram í Símadeildinni í gær en allt útlit er fyrir að úrslit á toppi og botni ráðist ekki fyrr en í lokaumferðinni. Eyjamenn komust upp að hlið Skagamanna á toppi Símadeildarinnar með glæstum 2-0 sigri á Keflvíkingum í Keflavík. Tómas Ingi Tómasson skoraði fyrsta markið eftir mikinn vandræðagang hjá vörn heimamanna. Hinn ungi og efnilegi Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði annað markið á 15.mínútu leiksins og allt útlit fyrir markaveislu. Sú varð nú ekki raunin og fleiri mörk voru ekki skoruð.
Aðalmarkmið FH-inga fyrir tímabilið var að tryggja stöðu sína í deildinni. Það hefur tekist og gott betur en það. Þeir eru nú aðeins stigi á eftir toppliðunum eftir öruggan sigur í Kaplakrika. Það voru þeir Jónas Grani Garðarsson, Freyr Bjarnason og Jón Þorgrímur Stefánsson sem skoruðu mörk heimamanna í 3-0 sigurleik gegn Breiðablik. Allt útlit er fyrir það að Blikar spili í 1.deild á næsta tímabili.
Valsmenn lágu í vörn á KR-vellinum og áttu ekki í vandræðum með að halda aftur af heimamönnum sem sköpuðu sér varla færi í leiknum ef frá er talin vítaspyrna sem þeir fengu á síðustu mínútu leiksins. Þórður Þórðarson gerði sér lítið fyrir og varði arfaslaka spyrnu Hollendingsins Sergio Ommel. Lokatölur urðu 0-0 í Vesturbænum og gestirnir fögnuðu dýrmætu stigi í leikslok.
Umferðinni lýkur í kvöld með tveim leikjum, en þá fara Framarar í heimsókn upp á Akranes í leik sem verður í beinni á Sýn (Áfram Fram!) og Fylkir mætir Grindavík í Árbæ.
—
Keflavík - ÍBV 0-2
0-1 Tómas Ingi Tómasson (11)
0-2 Gunnar Heiðar Þorvaldsson (15)
FH - Breiðablik 3-0
1-0 Jónas Grani Garðarsson (14)
2-0 Freyr Bjarnason (40)
3-0 Jón Þorgrímur Stefánsson (89)
KR - Valur 0-0