Loksins, loksins hugsuðu örugglega margir KR-ingar með sér í gærkvöldi þegar lið þeirra lagði Grindvíkinga 2:0 í Frostaskjóli. Leikurinn var í níundu umferð og löguðu Vesturbæingar stöðu sína nokkuð með sigrinum en eru þó enn tveimur stigum á eftir Fram og þremur á eftir Val. Grindvíkingar eru einu stigi þar fyrir ofan og alls ekki í góðum málum.
Við erum búnir að bíða dálítinn tíma eftir þessum sigri, eða í fjórar umferðir,“ sagði Þormóður Egilsson, fyrirliði KR, eftir sigurinn. Þormóður lék ekki með í síðasta leik, hefur verið meiddur á hné, en lét það ekki aftra sér frá því að leika í gærkvöldi. Hann var þó orðinn mjög þreyttur undir lok leiksins. ”Ég hef ekkert leikið í einar þrjár vikur og var orðinn nokkuð þreyttur í hnénu undir lokin,“ sagði hann.
Hann sagði ljóst að ástandið væri alvarlegt og menn yrðu að halda áfram og byggja á þessum sigri. ”Við erum í þeirri stöðu að vera í bullandi fallhættu og það viljum við auðvitað ekki. Leiðin gat ekki annað en legið upp á við og við verðum að byggja á þessum sigri. Framundan er ekkert annað en barátta upp á líf og dauða. Við vissum það fyrir leikinn en nú hugsa menn ekki fram í miðjan september, heldur aðeins um næstu tæklingu," sagði fyrirliðinn, sem lék vel í vörn KR.
Gestirnir úr Grindavík fengu fyrsta marktækifærið í leiknum. Sinisa Kekic fór þá illa með vörn KR og átti fínt skot af tiltölulega stuttu færi en Kristján Finnbogason varði vel í horn.
Nokkru síðar átti Scott Ramsey lúmskt skot frá vítateigshorninu en rétt framhjá. Eftir þetta færi má segja að þætti Grindvíkinga hafi verið lokið þar til undir lok leiksins að þeir létu á ný að sér kveða við mark KR.
Heimamenn virtust hins vegar vakna af alvöru til lífsins þegar Einar Þór Daníelsson fékk gult spjald á 18. mínútu. Strangur dómur, sérstaklega þegar brot Ramseys á Sigursteini Gíslasyni á 35. mínútu beint fyrir framan augun á dómaranum er haft í huga. Hafi brot Einars Þórs verðskuldað gult spjald hefði Ramsey trúlega átt að fá rautt. Hann fékk ekki einu sinni tiltal.
Hvað um það, þetta spjald virtist koma heimamönnum í gang og á sömu mínútu kastaði Guðmundur Benediktsson sér fram og skallaði rétt framhjá.
Næstu tuttugu mínúturnar gerðist lítið upp við mörkin en hins vegar var meira um langar, ónákvæmar sendingar sem hefðu getað orðið góðar hefðu þær hitt á samherja eða farið framhjá eða yfir varnarmenn. En því var ekki að heilsa að þessu sinni og þessar 40-60 metra löngu sendingar voru gjörsamlega misheppnaðar og óþarfar því oftast mátti sjá fría menn mun nær þeim er sendi.
Einar Þór kom sínum mönnum yfir á 38. mínútu eftir glæsilega sókn sem hann hóf sjálfur á vinstri kantinum og á síðustu mínútu fyrri hálfleiks skallaði Tryggvi Bjarnason rétt framhjá eftir aukaspyrnu.
Einar Þór lét aftur að sér kveða á fyrstu mínútu síðari hálfleiks þegar hann kom KR í 2:0 af miklu harðfylgi og nú fór í hönd kafli þar sem KR var meira með boltann en gestirnir reyndu að beita skyndisóknum, sem ekki gengu vel. Mótlætið fór í skapið á gestunum, sem fengu að líta þrjú spjöld á þriggja mínútna kafla, eitt fyrir brot og tvö fyrir mótmæli.
Það var allt annað að sjá til KR-liðsins en í síðustu leikjum, þar sem andleysið hefur verið algjört. Upphaf leiksins benti til að lítil breyting yrði þar á, en leikmönnum tókst að berja sig saman og er á leið óx þeim ásmegin og sjálfstraustið kom, nokkuð sem ekki hefur sést mikið af í sumar. Þormóður og Einar Þór voru bestu menn liðsins að þessu sinni. Kristján var mjög öruggur í markinu og vörnin stóð fyrir sínu. Vængmönnum liðsins hættir til að koma fullmikið inn á miðjuna og þrengja þannig allan leik liðsins og einnig mega miðjumennirnir taka virkari þátt í sókninni, því þótt þeir Guðmundur og Einar Þór séu lunknir leikmenn er ekki verra að styðja við bakið á þeim.
Grindvíkingar voru slakir að þessu sinni þrátt fyrir að nokkrir menn ættu ágæta kafla. Sóknartilburðir liðsins voru afskaplega aumingjalegir og það var helst að skapaðist hætta ef Kekic fékk boltann eða Ramsey. En þótt sá síðarnefndi sé fimur með boltann kom ekki nægilega mikið út úr því hjá honum í gærkvöldi.