TVEIR LEIKIR Á SÓLAHRING Í SITTHVORU LANDINU
Guðlaug Jónsdóttir náði því að leika með íslenska landsliðinu og félagsliði sínu í Danmörku á sama sólarhringnum um helgina. Guðlaug lék með landsliðinu gegn Rússum en leikurinn fór 1-1. Hún hélt til Danmerkur með næturflugi og var lent þar um fimmleytið um morguninn. Klukkan 11 að íslenskum tíma hófst leikur Bröndby og Fortuna í dönsku úrvalsdeildinni og þar kom Guðlaug heldur betur við sögu því hún tryggði liði sínu jafntefli, 2-2, þegar hún jafnaði metin í upphafi síðari hálfleiks.
—
KS FALLIÐ Í 2.DEILD
Þróttur Reykjavík er enn með í baráttunni um sæti í Símadeildinni eftir að hafa sigrað KS á Siglufirði 3-0 í 1. deild karla á laugardag. Þróttur er eftir leikinn í 4. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Þór frá Akureyri sem er í öðru sæti. KS er sem fyrr langneðst og féll endanlega í aðra deild með þessum ósigri, eftir aðeins eins árs dvöl.
—
ANDRI Á SKOTSKÓNUM
Fyrrum KR-ingurinn Andri Sigþórsson tryggði Salzburg jafntefli, 2-2, gegn Bregenz á útivelli í austurrísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn. Andri jafnaði metin á 68. mínútu þegar hann nýtti sér mistök markvarðar sem hélt ekki boltanum eftir skot. Andri lék allan leikinn með Salzburg sem er í áttunda sæti af tíu liðum í deildinni. Kvikmyndastjarnan Helgi Kolviðsson lék allan leikinn með Kärnten sem gerði markalaust jafntefli heima við Austria Wien. Nýliðar Kärnten eru í fjórða sæti deildarinnar eftir átta umferðir, sex stigum á eftir toppliðinu, Tirol Innsbruck.