Það held ég að það sé skítt að vera áhangandi La Viola þessa dagana. Flestallar stjörnurnar eru á bak og burt, og þær fáu sem eftir eru verða líklega seldar á næstunni ef liðið á ekki að fara á kaldan klaka.
Nú er svo komið að leyfi félagsins til að leika á Artemio Franchi leikvangnum er útrunnið. Fáist ekki peningar til að borga fyrir endurnýjun leyfisins fær liðið ekki að spila þar í vetur. Eina leiðin til að afla peninganna í tæka tíð er að selja Enrico Chiesa. En þó það tækist (hann er á leiðinni til Internazionale) lýkur vandanum ekki þar, oooonei. Þjálfarinn Roberto Mancini er orðinn svo yfir sig vonlaus á leikmannasölu liðsins að hann hefur hótað að verði Chiesa seldur muni hann segja upp og skilja liðið eftir þjálfaralaust þegar innan við vika er í að Serie A hefjist.
Verst af öllu er þó að aðdáendur liðsins í Flórens, sem eru heimsþekktir fyrir óbilandi trú, traust og stuðning við félagið, virðast hafa látið hugfallast og það er að sjá að þeir hafi gefist upp á að halda með þessu vitleysingjahæli (aðalvitleysingurinn er auðvitað Vittorio Cecchi Gori, forsetinn veruleikafirrti). Salan á ársmiðum á Franchi leikvanginn hefur ekki gengið jafn illa í áratugi og allt útlit fyrir að þeir hafi snúið baki við félaginu í stórum stíl.
Hvort hlutskipti Fiorentina í ár verður botnbrátta er alls óvíst. Lagist ekki andrúmsloftið er hins vegar óumflýjanlegt að framtíð þessa fræga stemmningsklúbbs verði í Serie B.