Á heimasíðu Fiorentina segir að þeir hafi samþykkt tilboð West Ham í varnarmanninn Alessandro Pierini fyrir 14 billjón lírur!!! Það er víst eitthvað nálægt 4,5 millum í pundum talið. Glenn Roeder er eins og flestir stjórar á fullu að styrkja lið sitt fyrir átökin í vetur. Pierini er í London og mun gangast undir læknisskoðun. Hann og Roberto Mancini, stjóri Fiorentina, eiga víst ekki alveg skap saman þannig að þetta er víst bara góður kostur fyrir alla aðila.
Það eru víst fleiri í boltanum sem ekki eiga skap saman því David Batty, nagli í Leeds, og Howard Wilkinson, fyrrum framkvæmdastjóri eiga nú í deilum á síðum blaða og netmiðla. Batty er að gefa út ævisögu sína og kemur hún út í september. Þar lýsir hann Wilkinson sem afar leiðinlegum stjóra og þjálfara sem hafi blaðrað út í eitt um allt og ekkert. Hafi verið svona “skólastjóratýpa” og Wilkinson er ekkert alltof glaður. Það sem Wilkinson svíður þó mest eru einhver ummæli um Billy Bremner, sem orðinn er þjóðsagnapersóna í Leeds. Batty var víst ekkert of hrifinn af honum heldur. Billy getur svosem ekkert sagt, en hann lést fyrir nokkrum árum, rúmlega fimmtugur. Wilkinson hótar málssókn vegna ærumeiðinga og Batty greyið veit ekki alveg hvert hann á að snúa sér. Þó Wilkinson sé skrýtin skrúfa og hafi ekkert gengið of vel með u-21 árs landsliðið, er hann talinn einn færasti “tæknilegi ráðgjafinn” í boltanum og ég virði hann alltaf fyrir það unglingastarf sem hann kom á laggirnar og er að skila sér heldur betur í dag.
Svo má geta þess fyrir þá sem eru “á kafi” í boltanum að ekki gekk hjá Porto að endurheimta brassan markheppna, Mario Jardel, frá Galatasary. Nú hafa þeir snúið sér að Oliver Bierhoff sem er alveg til í að yfirgefa AC Milan sem fyrst. Marseille var búið að gera tilboð í Jardel, sem datt út úr myndinni þegar Porto vildi hann aftur. Ekki er talið ólíklegt að hann fari til Frakkanna á endanum.