Þrír leikir fóru fram í kvöld í Símadeildinni og unnust þeir allir á útivelli. Blikar gripu til örþrifaráða til að fá stuðning en liðið situr í neðsta sæti deildarinnar. Boðsmiða var dreift inn á heimili í Kópavoginum á leik liðsins gegn Grindavík en það dugði ekki því úrslitin urðu 2-4 fyrir Grindavík. Einn besti leikmaður Íslandsmótsins að mínu mati, Sinisa Kekic, skoraði fyrsta mark leiksins á 41.mínútu. Grindvíkingar hafa verið í mikilli lægð að undanförnu og kveikti þetta mark vonir stuðningsmanna um að sú tíð væri liðin. Fjórir fastamenn Breiðabliks, þeir Che Bunce, Kristófer Sigurgeirsson, Kjartan Einarsson og Kristján Brooks, voru frá vegna meiðsla. Lið þeirra í kvöld var því gjörbreytt frá síðasta leik. Ásgeir Baldurs kom hins vegar aftur inn í liðið eftir langa fjarveru vegna meiðsla sem og Guðmundur Örn Guðmundsson og Ívar Jónsson. Athygli vakti að Rannver Sigurjónsson var einnig í byrjunarliðinu en hann er einungis 16 ára gamall. Þrátt fyrir þetta náðu Blikar að jafna metinn í seinni hálfleik eftir mjööög umdeilda vítaspyrnu á 75.mínútu (samkvæmt lýsingu á Rás 2). Varamaðurinn Paul McShane skoraði svo annað mark Grindvíkinga í leiknum eftir skalla Ólafs Stefáns Flóventssonar. Þegar fimm mínútur voru eftir fylgdi Grétar Hjartarsson eftir sláarskoti frá Scott Ramsey og skoraði 1-3. Þeir voru ekki hættir því Sinisa Kekic skoraði annað mark sitt og lokamark Grindavíkur í viðbótartíma og Grindvíkingar unnu mikilvægan 2-4 sigur því Blikar náðu aðeins að klóra í bakkann í lokið. Næsti leikur Grindavíkur er gegn Fram sem er á miklu skriði þannig að búast má við stórleik í Grindavík á Sunnudaginn.
Ekkert hefur gengið hjá KR-ingum það sem af er sumri og engin breyting varð á því í kvöld. FH-ingur komu í heimsókn án Atla Viðars Björnssonar sem er meiddur og líklegt að sumarið sé búið hjá honum. Jónas Grani skoraði eina mark fyrri hálfleiks. FH-ingar fengu svo vítaspyrnu og var það ellismellurinn Hörður Magnússon sem skoraði örugglega úr spyrnunni. Hörður tók stöðu Atla í FH liðinu og skilaði sínu hlutverki ágætlega, þrátt fyrir að hann hafi nú verið frískari. Moussa Dagnogo var ekki í liði KR en hann hefur valdið miklum vonbrigðum í sumar, eins og reyndar allt KR liðið. Tryggvi Bjarnason náði að minnka muninn fyrir KR í 1-2 en það urðu lokatölur leiksins. FH hefur náð að festa sig í sessi meðal bestu liða landsins og hver veit nema þeir fái kannski nafn sitt á dolluna eftir einhver ár!
Í Keflavík léku heimamenn gegn ÍA. Margir spá því að Skagamenn muni há einvígi við Fylki um Íslandsmeistaratitilinn og það kæmi mér ekki á óvart. Allavega fóru þeir með öll stigin frá Suðurnesjunum. Eina mark leiksins skoraði markahrókurinn Hjörtur Hjartarsson í fyrri hálfleik. Miklar líkur eru á því að Hjörtur fái gullskóinn á þessu ári, allavega ef hann heldur svona áfram. Litlu munaði að heimamenn næðu að jafna metinn á seinustu mínútunum en Unnar Valgeirsson bjargaði á marklínu. Þessi sigur ÍA var gríðarmikilvægur því ekki vilja þeir missa Fylkismenn of langt framúr sér. En meira veit ég ekki um þennan leik og úrslitin 0-1 fyrir ÍA.
—
KR - FH 1-2
0-1 Jónas Grani Garðarsson (30)
0-2 Hörður Magnússon (v)
1-2 Tryggvi Bjarnason
Keflavík - ÍA 0-1
0-1 Hjörtur Hjartarson (4)
Breiðablik - Grindavík 2-4
0-1 Sinisa Kekic (41)
1-1 ? (v) (75)
1-2 Paul McShane
1-3 Grétar Hjartarsson (85)
1-4 Sinisa Kekic (91)
2-4 Albert Sævarsson (sjm.)