Ásmundur var í Þjóðhátíðarskapi! 12.umferð Símadeildarinnar hófst í kvöld. ÍBV mættu Frömurum og Eyjamenn sýndu alls engan “þjóðhátíðarleik”. Fyrsta markið kom strax á 3ju mínútu þegar Ásmundur Arnarson kom Fram yfir. Eftir markið sóttu Eyjamenn heldur meira og uppskáru laun erfiðisins þegar rúmlega hálftími var liðinn af leiknum og var það fyrirliðinn sjálfur og reynslujaxlinn, Hlynur Stefánsson, sem skoraði. Staðan í háfleik 1-1. Ásmundur skoraði svo sitt annað mark og kom Fram yfir eftir að varnarmenn ÍBV voru sofandi. Þetta var fyrsti tapleikur ÍBV á tímabilinu á heimavelli, og það á móti öðru botnliðinu! Ásmundur Arnarson fullkomnaði þrennu sína og Fram vann 1-3. Eyjamenn verða að spýta í lófana fyrir fyrsta leik eftir Þjóðhátíð sem er gegn KR. Kjaftasaga var í gangi þess efnis að Alexander Ilic myndi ekki leika meira með ÍBV í sumar. Hann var hins vegar í byrjunarliðinu í kvöld í staðinn fyrir Marc Goodfellow. Ekki veit ég hvort að refurinn Gunnar Már Másson hafi verið í hópi ÍBV en hann hefur tekið skóna niður úr hillunni.

Toppliðið, Fylkir, er komið með fimm stiga forystu á toppi Símadeildar karla í knattspyrnu en Fylkir sigraði Val 1-3 á Hlíðarenda í kvöld. Selfyssingurinn Sævar Þór Gíslason skoraði tvö mörk fyrir Fylki. Hitt mark liðsins gerði Hrafnkell Helgason. Keli er víst á leiðinni til Bandaríkjanna í nám og er það hlutverk Alexanders Högnasonar að fylla skarðið sem hann skilur eftir sig. Stefán Þórðarsson náði að minnka muninn fyrir Val en það mark kom alltof seint og 1-3 sigur Fylkis á Hlíðarenda staðreynd.

Allt stefnir í að áhorfendamet verði slegið í Símadeildinni í knattspyrnu í ár. Undanfarin ár hefur aðsóknin verið á stöðugri
uppleið, met slegið á hverju ári. Árið 1999 var meðaltalið 897 manns á leik, en í fyrra 899. Menn voru síðan að gæla við þá hugmynd að 900 manna múrinn yrði rofinn árið 2001. Raunin er sú að útlit er fyrir að áhorfendametið í Símadeild karla verði slegið svo um munar, því meðaltal á leikjum deildarinnar þegar þetta er ritað er 1.110 manns!



ÍBV - Fram 1-3
0-1 Ásmundur Arnarson (3)
1-1 Hlynur Stefánsson (31)
1-2 Ásmundur Arnarson (55)
1-3 Ásmundur Arnarson (87)

Valur - Fylkir 1-3
0-1 Sævar Þór Gíslason (4)
0-2 Hrafnkell Helgason (41)
0-3 Sævar Þór Gíslason (71)
1-3 Stefán Þórðarson (90)



Þetta voru ekki einu leikir kvöldsins sem enduð 1-3 því að í 1.deild karla sigraði Dalvík Leiftur 1-3 á Ólafsfirði og er Leiftur nú komið í fallsæti en Dalvík er í sjöunda sæti.