Í kvöld fóru fram þrír leikir í Símadeild karla í knattspyrnu. Í Grindavík voru FH-ingar í heimsókn. Eftir tuttugu mínútna leik kom Jónas Grani Garðarsson gestunum yfir. FH sótti nokkuð eftir þetta mark og voru líklegri til að bæta við marki en heimamenn að jafna. Þrátt fyrir það náði markahrókurinn Grétar Hjartarsson að skora rétt fyrir hálfleik. Eftir 15 mínútna leik í síðari hálfleik skoraði Róbert Magnússon sigurmark leiksins og FH vann Grindavík 2-1.
Á Akranesi léku erkifjendurnir í ÍA og KR. Akurnesingar efndu til fagnaðar í tilefni af því að 50 ár eru liðinn frá því að ÍA vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í knattspyrnu karla. Íslandsmeistarnir frá 1951 voru heiðursgestir á leiknum. Þeim leiddist leikurinn væntanlega ekki því Skagamenn unnu 2-0 og ég býst við því að þeir muni veita Fylkismenn hvað harðasta keppni um Íslandsmeistaratitilinn. Kári Steinn Reynisson skoraði tvisvar framhjá Kristjáni Finnbogasyni sem stóð í KR-markinu í fjarveru Bjarka sem er meiddur.
Í Laugardal fór fram botnslagur Fram og Breiðabliks. Það var ótrúlegt að Þorbjörn Atli náði ekki að skora en hann slapp oftar en einu sinni einn á móti Atla Knútssyni. Che Bunche skoraði eftir þunga sókn Blika á 25.mínútu en þeir höfðu skömmu áður fengið ágætt færi sem Framarar bægðu frá í horn en uppúr því skorðuðu Blikar. Gestirnir voru betri það sem eftir lifði hálfleiksins. Á 48.mínútu var brotið á Ásmundi Arnarssyni innan vítateigs, Kristinn dæmdi umdeilda vítaspyrnu sem Ágúst Gylfason skoraði úr af miklu öryggi og jafnaði metinn. Ásmundur skoraði fyrir Fram á 72.mínútu eftir sendingu frá Þorbirni. Framarar unnu lífsnauðsynlegan sigur 2-1.