Amsterdam-mótið Liverpool og Ac Milan sigruðu Boltinn fór að rúlla á Amsterdam-mótinu á fimmtudaginn þegar að Ajax mætti AC Milan í opnunarleiknum. Milan sigraði 1-0 með mark frá Rui Costa, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið. Ítalirnir byrjuðu leikinn af miklum krafti með þá Costa og Serginho fremsta í flokki og ljóst að þarna er komið lið sem á eftir að gera harða atlögu að ítalska meistaratitilinum á næstu leiktíð. Lið Ajax náði að sýna nokkuð góða takta í síðari hálfleik án þess þó að ógna marki Milan-manna að ráði.

Liverpool byrjuðu mótið með 1-0 sigri á Valencia og verður sá sigur að teljast afar ósanngjarn þar sem leikmenn Valencia yfirspiluðu Liverpool nær allan leikinn. Það var ein af goðsögnum Ajax frá gullaldartímabili félagsins, Jari Litmanen, sem skoraði sigurmarkið úr fyrsta alvöru færi Liverpool í leiknum á 86. mínútu, og var honum vel fagnað af fjölmörgum Hollendingum sem hafa greinilega ekki gleymt honum.

Næstu leikir eru á laugardaginn, en þá mætast AC Milan og Valencia, og Ajax mætir Liverpool.