Í Árbæ mættust Fylkir og Keflavík. Eftir 13 mínútna leik var staðan orðin 2-0 og flestir töldu ljóst í hvað stefndi, en annað kom á daginn. Sverrir Sverrisson og Pétur Björn Jónsson skoruðu mörk Fylkis sem byrjuðu leikinn af miklum krafti. Að mínu mati léku tvö bestu sóknarlið landsins í Árbænum í gær. Fylkismenn hafa gommu af frambærilegum sóknarmönnum og Keflvíkingar hafa nokkra mjög snögga og beitta. Þeirra á meðal er Haukur Ingi Guðnason en hann minnkaði muninn fyrir Keflvíkinga á 26 mínútu. Þórarinn Kristjánsson jafnaði svo metin með fallegu marki á 60. mínútu eftir skógarhlaup Kjartans Sturlusonar, Fylkismarkmanns. Nógur tími eftir til annað liðið gæti hirt öll stigin en allt kom fyrir ekki og liðin deildu stigunum í sanngjörnum 2-2 jafnteflisleik.
Scott Ramsey, Skotinn hjá Grindavík, var maður leiksins þegar Valsmenn léku í Grindavík í gær. Á sjö mínútna kafla í síðari hálfleik lagði hann upp mark fyrir Grétar Hjartarson og skoraði síðan sjálfur. Valsmenn misstu af góðu tækifæri til að saxa á forskot Fylkis á toppnum en Grindavík stefnir í hóp efstu liða, þar sem þeir eiga heima að mínu mati. Góður 2-0 sigur.
Eyjamenn náðu fram hefndum gegn FH í gær en Hafnfirðingar slógu ÍBV út úr bikarnum í vikunni. Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði eina mark leiksins á 8.mínútu en nokkrum sekúndum áður munaði litlu að hann hefði skorað. Tómas Ingi Tómasson fékk dauðafæri til að koma ÍBV í 0-2 en Daði varði. frá sér. Hafnfirðingar urðu fyrir miklu áfalli eftir hálftíma er Atli Viðar Björnsson meiddist og þurfti að fara af leikvelli og kom Hörður Magnússon í hans stað. En úrslitin FH 0-1 ÍBV. Hlynur Stefánsson var traustur í vörn ÍBV, Bjarnólfur Lárusson spilaði vel og mikið bar á Gunnari Heiðari í framlínunni en nokkuð dró af honum er leið á leikinn. Aleksander Ilic var ekki í leikmannahópi ÍBV en hann hefur ekki staðið undir væntingum og hefur verið lánaður til KFS (Smástundar) sem er 3.deildar lið í Vestmannaeyjum. Á næstunni má búast við því að Lewis Neal og Marc Goodfellow verði kallaðir heim til Stoke og verður það mikil blóðtaka fyrir Eyjamenn en sá síðarnefndi átti góðan leik í gær.
Spennan í Símadeildinni er nú gríðarleg! Á sunnudagskvöld fara fram þrír leikir í deildinni. Erkifjendurnir í ÍA og KR eigast við, fallbaráttuslagur Fram og Breiðabliks verður í Laugardalnum og Grindavík tekur á móti FH.
Fylkir - Keflavík 2-2
1-0 Sverrir Sverrisson
2-0 Pétur Björn Jónsson (13)
2-1 Haukur Ingi Guðnason (26)
2-2 Þórarinn Kristjánsson (60)
Grindavík - Valur 2-0
1-0 Grétar Hjartarsson (59)
2-0 Scott Ramsey
FH - ÍBV 0-1
0-1 Gunnar Heiðar Þorvaldsson (8)
—
Í 11.umferð 1. deildar mörðu KA menn sigur á nágrönnunum í Tindastóli. Eina markið skoraði Þorvaldur Makan Sigbjörnsson á síðustu sekúndum leiksins. Í kvöld kl.20 mætast Dalvík og Víkingur, Stjarnan og KS, Þróttur og Leiftur.