Belgíska félagið Harelbeke hefur gefið Sigurði Ragnari Eyjólfssyni frjálsa sölu frá félaginu. Sigurður kom til Harelbeke frá Walsall í nóvember síðastliðnum en hefur fengið lítil sem engin tækifæri með liðinu síðustu mánuði. Sigurður hefur leikið með Víkingi og ÍA hér heima en er uppalinn KR-ingur. Samkvæmt gras.is hefur hann ekki gert upp við sig hvert hann ætli að fara en orðrómur hefur verið í gangi um það að hann ætli að fara í Vesturbæinn að hjálpa sínum gömlu félögum frá vandræðunum sem þeir eru í. Sigurður var orðaður við ÍBV fyrir nokkru en ekkert varð úr því.

Kannski að Andri Sigþórsson komi bara líka heim?! Allavega gengur ekki vel hjá honum í Austurríki. Salzburg, lið Andra, gerði 0-0 jafntefli gegn Tirol Innsbruck í gær og kom Andri inná sem varamaður á lokamínútunum. Hins vegar virðist Karnten, lið Helga Kolviðssonar til alls líklegt. Liðið vann Rapid Vín 3-0 í gær og skoraði Helgi fyrsta mark leiksins. Karnten er sem stendur í öðru sæti deildarinnar.

Aðrar fréttir af leikmannamálum:

Bjarnólfur Lárusson leikur með ÍBV út leiktíðina. Hann var með ákvæði í samningi sínum við félagið að honum væri frjálst að fara frá félaginu ef tilboð bærist í hann að utan fyrir einhvern ákveðinn tíma sem nú er runninn út. Einhver skortur virðist hafa verið á tilboðunum.

Fram kemur á heimasíðu stuðningsmanna Víkings, www.vikingur.net (mögnuð síða) að miðjumaðurinn Lárus Huldarson hafi ákveðið að hætta hjá félaginu. Ástæðan ku vera sú að honum hefur ekki tekist að vinna sér inn sæti í liðinu að undanförnu og á hann víst erfitt með að sætta sig við það.

Ívar Bjarklind er kominn í KA, og mun leika með þeim út sumarið. Hann lagði síðan skóna á hilluna en tók þá fram síðasta sumar og lék með KR. Hann lagði skóna aftur á hilluna eftir síðasta sumar en á erfitt með að hætta.

Einn leikur fór fram í annarri deild karla í gær. Víðir og Nökkvi léku í garðinum. Leikurinn var ansi skrautlegur fyrir margar sakir. Nökkvamenn mættu heldur fáliðaðir í Garðinn og var enginn á varamannabekk liðsins (kannski einn!). Liðið lék líka í treyjum frá KA (með KA merkinu og allt!)! Einn maður liðsins meiddist og kallaði dómarinn á “sjúkraþjálfara” liðsins. Hann kom hlaupandi inná með einn vatnsbrúsa. Á endanum fundu þeir einhver sárabindi sem þeir vöfðu illa um haus mannsins sem kom svo aftur inná en vissi ekki hvort hann væri að koma eða fara. Liðið lék hörmulega illa og ótrúlegt að þeir skildu ná 1-1 jafntefli úr leiknum. Bæði þessi lið eru það slök að þau eiga varla skilið að vera í 2.deild.

1 Sindri 11 29
2 Haukar 11 27
3 Afturelding 11 21
4 Selfoss 11 16
5 Léttir 11 14
6 Leiknir R. 11 13
7 Skallagrímur 11 11
8 Víðir 11 7
9 KÍB 11 7
10 Nökkvi 11 6