Chile-íski framherjinn Marcelo Salas hjá Lazio hefur enn og aftur komið í veg fyrir að verða seldur til annars liðs á síðustu stundu. Til stóð að hann færi til Valencia í skiptum fyrir Kily Gonzales, en nú hefur El Matador, eða Nautabaninn, eins og Salas er kallaður, snögglega neitað að ganga til liðs við Valencia. Þennan leik lék hann líka þegar Lazio var næstum búið að selja hann til Parma, og aftur nú í sumar þegar til stóð að selja hann til Inter Milan. Mótþróinn í Salas þýðir að nú þarf Lazio að punga út rúmlega 20 milljónum punda fyrir Kily.
Umboðsmaður Salas segir hann vera að skoða mögulega færslu til Juventus, sem eru að leita logandi ljósi að markaskorara til að taka við af Pippo Inzaghi. Menn segja að Juve hafi verið full fljótir á sér að selja Inzaghi - það hefði verið gáfulegra að tryggja sér Christian Vieri fyrst. En “Bobo” hefur nú ákveðið af heilum hug að vera áfram hjá Inter Milan, og treyja nr. 9 hjá Juve hangir á herðatrénu enn um sinn . . .