Peter Schmeichel telur allar líkur á því að Man Utd muni hirða titilinn í vetur. Þó ekki eins auðveldlega eins og á síðustu leiktíð. Hann spjallaði um komandi tímabil í útvarpsviðtali á BBC Radio 5 og sagði Leeds, Arsenal og Liverpool verða í baráttunni. Hann vildi meina að Leeds yrðu skeinuhættustu andstæðingar Man Utd, því þar væri Brian Kidd innanborðs.
Kidd er náttúrulega snilldarþjálfari, það er engin launung á því og allir hjá Leeds yfir sig ánægðir með manninn. Verst að Man Utd er enn að sverma fyrir David O´Leary og hafa greinilega sent honum einhver skilaboð, svona með gull og græna skóga – dæmi, því Peter Ridsdale segist ekki munu koma í veg fyrir það, vilji O´Leary fara. Maður trúir því samt varla, hann hlýtur að vilja gera áfram góða hluti með þetta efnilegan mannskap.
Newcastle eru voða ánægðir með vini sína í Leeds, svona í augnablikinu allavega. Newcastle sló út Lokeren, 1-0 og 4-0 í Intertoto keppninni og drógust svo á móti 1860 Munchen í næstu umferð. Þeir sendu njósnara að sjá leik 1860 á móti hollenska liðinu RCK Waalwijk, sem 1860 vann 3-1 samanlagt.
Þeir hjá Leeds sendu spólu með leikjunum tveim frá viðureignum Leeds og 1860 í fyrra umsvifalaust til Newcastle og er Bobby Robson ánægður með það. Hinsvegar er hann ekki meir en temmilega bjartsýnn, enda ekkert gefið á móti liði í þýsku Bundesligunni.