Portúgalski miðjuleikmaðurinn hjá Atletico Madrid, Hugo Leal, hefur verið undir smásjá Tigana, Fulhamstjóra, að undanförnu. Hann hyggst bjóða 5,5 millur í þennan 22ja ára pilt enda á fullu að styrkja liðið fyrir átökin við stóru strákana í vetur. Luis Boa Morte, framherji Fulham, vill ólmur fá Leal til liðsins, en Tigana er á stúfunum eftir miðjumanni eftir að John Arne Riise hætti við og fór til Liverpool.
Newcastlemenn reyndu eins og rjúpa við staur að fá Josep Guardiola sem ætlar að hætta hjá Barcelona í sumar, en fengu ekki. Guardiola hefur verið hjá Barca í 15 ár og Lyon, Olympiakos, Liverpool og Juventus hafa sýnt áhuga. Nú er Glenn Roeder, nýji stjóri West Ham á leiðinni til Spánar og vill taka spánverjann með sér heim.
Eitthvað hefur gengið illa hjá Bobby Robson, Newcastlestjóra, að bæta í hópinn í sumar. Hann bauð 9,5 millur í Laurent Robert hjá PSG en þeir vildu helst ekki leyfa honum að fara. Frakkinn er eitthvað tvístígandi því hann hefur beðið um frest til að svara tilboðinu, svo Robson er bara áfram að stressast.
Liverpool hefur tekið tilboði Tottenham uppá 4 millur fyrir Christian Ziege. Þeir keyptu hann á fimm og hálfa frá Middlesbrough fyrir ári síðan, eftir mikið vesen.
Verðið fer þó uppí 5,5 ef hann spilar mikið hjá Spurs. Ziege segir ástæðuna fyrir flutningnum þær að hann fái að spila á miðjunni hjá Spurs, en var vinstri bakvörður hjá Púllurunum, þ.e.a.s. þegar hann fékk að vera með.