Grindavík tapaði fyrir Basel
Grindavík tapaði í dag fyrir svissneska liðinu Basel í 2. umferð Inter-toto keppninnar í knattspyrnu karla og er því úr leik í keppninni. Leikurinn fór fram í Grindavík í frábæru veðri við glæsilegar aðstæður. Svisslendingarnir skoruðu strax á 14. mínútu og höfðu því 0-1 yfir í hálfleik. Þeir skoruðu svo annað mark tíu mínútum fyrir leikslok og úrslitin 0-2. Basel sigraði 3-0 í fyrri leiknum í Sviss og samtals 5-0. Besta færi Grindvíkinga í leiknum fékk Sinisa Kekic undir lok fyrri hálfleiks. Hann slapp inn fyrir vörn gestanna en markvörðurinn varði skot hans. Kekic fékk boltann aftur og skot í annað sinn en varnarmanni tókst að bjarga á marklínu.