Hlutskipti liðanna tveggja sem mættust í sextán liða úrslitum bikarsins í Vesturbænum í gær hefur verið misjafnt í sumar. Fylkismenn eru efstir í úrvalsdeildinni og í gærkvöld komust þeir áfram í 8.liða úrslit bikarsins. KR-ingar ráku hins vegar þjálfara sinn fyrir skömmu, eru neðarlega í deildinni og dottnir út úr bikarnum. Fylkir vann stórleikinn í gær 1-0 en sigurinn hefði getað endað hvorum megin sem var. Ein afgerandi mistök réðu úrslitum. Þau gerði Gunnar Einarsson á 5. mínútu síðari hálfleiks. Hann togaði þá Steingrím niður rétt innan vítateigs KR og vítaspyrna dæmd sem Sævar Þór Gíslason skoraði úr. Errol McFarlane kom inná sem varamaður hjá Fylkismönnum og sýndi ágæt tilþrif, hann á þó eftir að venjast taktík liðsins og á örugglega eftir að styrkja Árbæinga mikið í baráttunni um dollurnar tvær.
Eyjamenn tryggðu sér sæti í átta-liða úrslitum bikarkeppninnar með 3-1 sigri á Breiðabliki í Eyjum. Á 10.mínútu skoraði Marc Goodfellow fyrsta mark sitt fyrir ÍBV með óverjandi skoti og draumamarki. Á 41. mínútu kom annað mark ÍBV og var þar að verki Alexander Ilic eftir samvinnu Stoke-strákana. Á 65. mínútu sendi Bjarnólfur góða stungusendingu inn fyrir vörn Blika á Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem skoraði þriðja mark ÍBV. Þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka fór loks að sjást til Breiðabliksmanna og á lokamínútu leiksins tókst Blikum að minnka muninn í tvö mörk og var þar að verki Kristófer Sigurgeirsson.
Sindri (2. deild) tók á móti Keflvíkingum. Yfirburðir gestanna voru ekki eins miklir og margir bjuggust við. Guðmundur Steinarsson skoraði á 28. mínútu og Þórarinn kristjánsson skoraði annað mark eftir sjaldséð varnarmistök hjá Sindra. Varamaðurinn Jóhann Benediktsson innsiglaði sigur gestanna með glæsilegu marki á 83. mínútu og Keflavík komnir áfram eftir 3-0 sigur á Höfn.
Skagamenn unnu Víkinga 4-1 á Valbjarnarvelli í skemmtilegum leik og Ólafur Þór Gunnarsson, markvörður ÍA, sá um að heimamenn skoruðu aðeins eitt mark. Hjörtur Hjartarson kom gestunum yfir úr vítaspyrnu á 9. mínútu. Fyrirliði ÍA, Gunnlaugur Jónsson, var réttur maður á réttum stað níu mínútum síðar og potaði boltanum yfir línuna. Hálfdán kom ÍA í 3-0 eftir sendingu frá Pálma. Haukur Gunnarsson minnkaði muninn á 75. mínútu með góðu marki eftir fínan undirbúning Sváfnis Gíslasonar. Gunnlaugur innsiglaði síðan sigurinn með góðum skalla eftir hornspyrnu á 81. mínútu.
Úrslit 16.liða úrslitanna í Coca Cola bikarnum:
Víðir - KA 0-2
Valur - Fram 2-3
KS - Grindavík 1-3
Stjarnan - FH 0-2
KR - Fylkir 0-1
Víkingur R. - ÍA 1-4
Sindri - Keflavík 0-3
ÍBV - Breiðablik 3-1