Vittorio Cecchi Gori, forseti Fiorentina, segir að það sé ekkert að bókhaldinu hjá Flórens-liðinu og bætir við að Fiorentina sé síður en svo að fara á hausinn eins og gefið hefur verið í skyn undanfarna daga.
“Þetta vandamál er ekki til. Það er ekkert að bókhaldinu hjá okkur.
”Öll félög geta starfað áfram vegna þeirra peninga sem koma inn frá sjónvarpsfyrirtækjunum og með sölu á leikmönnum. Þannig munum við afla þeirra peninga sem til þarf svo við lifum næsta tímabil af.
“Það er ekkert að þessum tölum. Ég keypti Batistuta á 3 milljónir punda en seldi hann á 23 milljónir punda. Þannig eiga félög á borð við Fiorentina að vinna. Við eigum kannski ekki 2 milljónir af stuðningsmönnum eins og þeir í Róm. Við eigum kannski 100.000 í Tuscany.
”Ég er mesti stuðningsmaður Fiorentina og ég mun berjast fram í rauðan dauðann fyrir félagið," sagði Gori.
Þrátt fyrir fögur orð forsetans þá verða þeir engu að síður að borga 40 milljónir punda fyrir 12. júlí ef þeir eiga ekki að verða dæmdir gjaldþrota.