Skoski knattspyrnumaðurinn Alistair McMillan sem lék með Grindavík sumarið 1999 er kominn til Vals og leikur væntanlega með Val út tímabilið. Einnig hefur Jón Gunnar komið frá FH en Stanici Constantin er farinn.
McMillan, sem er 26 ára og getur leikið á miðju og í vörn, lék með Grindavík 1999 en þá spilaði hann 11 leiki í úrvalsdeildinni og skoraði eitt mark. Hann lék með Stranraer í skosku 2. deildinni í vetur.
“McMillan er hjá okkur til reynslu en við reiknum með því að gera samning við hann til eins mánaðar til að byrja með ef okkur líst á hann. Það er mikilvægt að styrkja hópinn hjá okkur, Jakob Jónharðsson er úr leik og þeir Dean Holden og Sigurður Sæberg Þorsteinsson fara af landinu nokkru áður en Íslandsmótinu lýkur,” sagði Hörður Hilmarsson, formaður meistaraflokksráðs Vals, við Morgunblaðið í gær.
Sú ákvörðun var tekin að láta rúmenska leikmanninn Stanici Constantin fara en hann var ekki í nógu góðu formi. Þá hefur Jón Gunnar sem hefur leikið um 80 leiki með FH skipt yfir í Val
Tekið af www.valur.is