Þrír leikir fóru fram í gær í Símadeild karla. Stórleikur umferðarinnar fór fram á Skipaskaga og var æsispennandi. ÍA tók á móti Grindavík og sigraði 3-1. Hjörtur Hjartarsson er í hörkuformi þessa stundina og það var ekki liðin mínúta af leiknum þegar hann kom Skagamönnum yfir. Óli Stefán Flóventsson jafnaði metinn með góðu skallamarki eftir hálftíma leik en mínútu síðar skoraði Hjörtur annað mark sitt og heimamenn aftur komnir með forystuna. Þjálfari ÍA, Ólafur Þórðarsson, skipti sjálfum sér útaf og inn kom Hálfdán Gíslason. Hálfdán gulltryggði þeim Gulu sigurinn á 80.mínútu. 3-1 fyrir ÍA.
Það var einstefna í Árbænum þar sem Eyjamenn komu í heimsókn. Hinn ungi Ólafur Ingi Skúlason (bráðum leikmaður Arsenal) var felldur inní teig ÍBV og vítaspyrna dæmd. Sævar Þór tók spyrnuna og skoraði af öryggi. Hann var svo aftur á ferðinni á 26.mínútu eftir sjaldséð mistök af hálfu Birkis Kristinssonar í marki ÍBV, 2-O. Birkir gerði önnur mistök þegar hann misreiknaði langa sendingu Hrafnkels Helgasonar og boltinn lak inn. Englendingurinn Marc Goodfellow kom inná sem varamaður í liði ÍBV og hleypti nýju blóði í leik liðsins, en hann er nýkominn til Eyja í láni frá Stoke ásamt Lewis Neal. Samt skoraði Eyjapeyjinn Steingrímur Jóhannesson annað mark sitt í deildinni og fjórða mark Fylkis í leiknum. Öruggur 4-0 sigur hjá Fylki.
Framarar hafa verið einstaklega óheppnir í leikjum sínum í sumar (fyrir utan leikinn gegn ÍA) og engin breyting varð á í gær. Þeir fengu tvö dauðafæri í byrjun seinni hálfleiks í Kaplakrikanum gegn FH sem þeir náðu ekki að nýta. Þorbjörn Atli fékk eitt slíkt á 65.mínútu sem Daði varði vel. Síðar fylgdi Davíð Þór Viðarsson eftir skoti frá félaga sínum og skoraði af stuttu færi eina mark leiksins og FH hirti öll þrjú stigin sem í boði voru í heldur tíðindalitlum leik.
–
ÍA – Grindavík 3-1
1-0 Hjörtur Hjartarsson (1)
1-1 Óli Stefán Flóventsson (29)
2-1 Hjörtur Hjartarsson (30)
3-1 Hálfdán Gíslason (80)
Fylkir – ÍBV 4-0
1-0 Sævar Þór Gíslason (vsp) (15)
2-0 Sævar Þór Gíslason (26)
3-0 Hrafnkell Helgason
4-0 Steingrímur Jóhannesson (67)
FH – Fram 1-0
1-0 Davíð Þór Viðarsson