Þeir Marel Baldvinsson og Pétur Marteinsson skoruðu sitt hvort markið fyrir Stabæk sem vann meistarana í Rosenborg 3-0 í Norska boltanum í gær. Árni Gautur Arason stóð í marki Rosenborgar í leiknum. Marel skoraði fyrir Stabæk á 54. mínútu og þá var staðan 2-0. Pétur Marteinsson bætti þriðja markinu við þremur mínútum síðar. Tryggvi Guðmundsson lék einnig með Stabæk.
Þá skoraði Jóhann Guðmundsson eitt af mörkum Lyn, sem vann Tromsö 4-0. Jóhann gerði þriðja mark Lyn á 56. mínútu, en var síðan skipt út af á 73. mínútu.
Indriði Sigurðsson og Gylfi Einarsson komu inn á sem varamenn í liði Lilleström, sem vann Moss 3-0. Þá lék Stefán Gíslason allan leikinn fyrir Strömgodset, sem tapaði 5-1 fyrir Sogndal.
Viking er í efsta sæti deildarinnar með 27 stig eftir 2-2 jafntefli við Bodö/Glimt. Rosenborg kemur næst með 26 stig, Odd-Grönland og Lilleström eru með 23 og Stabæk 22 stig.
Af www.mbl.is