Fyrstu stig Framara Framarar sigruðu Skagamenn 1-0 í Símadeildinni í gærkvöld og náðu því sínum fyrstu stigum í sumar. Hefðu Skagamenn sigrað hefðu þeir komist á topp deildarinnar. Ásmundur Arnarson skoraði eina mark leiksins með þrumuskoti eftir fyrirgjöf Daða Guðmundssonar í fyrri hálfleik. Undirritaður er Framari og lét sig ekki vanta á völlinn. Fram-hjartað mitt tók oft kipp í seinni hálfleik þar sem Skagamenn stjórnuðu leiknum. Besta færi þeirra fékk Kári Steinn Reynisson þegar hann slapp einn á móti Fjalari í markinu en tókst ekki að skora. Þessi sigur er gríðarmikilvægur fyrir Fram.

Á Kópavogsvelli léku Breiðablik og FH. Eftir uþb. 20 mínútna leik kom Kristján Brooks Blikum yfir með snyrtilegu marki. Eftir hálftíma náði Atli Viðar Björnsson að jafna fyrir FH úr þröngu færi. Á lokamínútunni fengu Hafnfirðingar umdeilda vítaspyrnu eftir að boltanum var skotið í höndina á Che Bunce varnarmanni Blika. Ellismellurinn Hörður Magnússon tryggði FH 2-1 sigur með öruggu skoti.

Tómas Ingi Tómasson var í sviðsljósinu í liði ÍBV sem tók á móti Keflavík. Hann fékk mjög góð marktækifæri snemma í leiknum sem fóru forgörðum. Honum brást þó ekki bogalistin á 36.mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Inga Sigurðssonar. Keflvíkingar fengu gott færi til að jafna undir lokin sem þeir nýttu ekki og ÍBV vann því leikinn 1-0.

Í kvöld mætast Valur og KR í nágrannarimmu. Leikurinn hefst kl.20 að Hlíðarenda og verður í beinni útsendingu á Sýn. Sjöttu umferðinni lýkur þó ekki fyrr en 19.júlí með leik Grindavíkur og Fylkis.




Fram – ÍA 1-0
1-0 Ásmundur Arnarson (40 mín)

ÍBV – Keflavík 1-0
1-0 Tómas Ingi Tómasson (36)

Breiðablik – FH 1-2
1-0 Kristján Brooks (17)
1-1 Atli Viðar Björnsson (32)
1-2 Hörður Magnússon (vsp) (89)