Í kvöld fer fram stórleikur í Símadeildinni. Liðin sem börðust um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra kljást í Vesturbænum kl.20:00, KR og Fylkir. Leikurinn er hluti af 10. umferð í Símadeild karla sem verður leikin um miðjan júlí en þessum leik var flýtt vegna þátttöku beggja liða í Evrópukeppni á þeim tíma. KR ingar virðast vera að komast í gang eftir slæma byrjun, Einar Þór Daníelsson er að mínu mati eini leikmaður liðsins sem hefur verið að sýna sitt rétta andlit. Liðið vann öruggan sigur á Keflavík í seinustu umferð en þar skoraði Skotinn Andy Roddie annað mark KR í 2-0 sigri. Skotinn hleypir lífi í leik KR-inga og nú þarf Moussa Dagnogo að fara að passa sig! Rokið var í aðalhlutverki í seinasta leik Fylkis en þar unnu þeir óheppna Framara 4-2.
Fyrri leikur liðanna í sumar fór 1-0 fyrir Fylki. Markahrókurinn Steingrímur Jóhannesson skoraði eina mark leiksins. Fylkismenn hafa verið á ágætu róli það sem af er sumri og sitja sem stendur á toppi deildarinnar ásamt ÍA.