Fylkismenn komust á topp Símadeildarinnar ásamt Skagamönnum eftir 4-2 sigur á Frömurum á Fylkisvelli í gærkvöldi. Leikurinn einkenndist mjög af miklum vindi. Þegar stundarfjórðungur var liðinn gerði Sverrir Sverrisson fyrsta mark heimamanna og kom það úr fyrstu alvöru sókn Fylkis. Fimm mínútum síðar gerði Sævar Þór Gíslason annað markið og það þriðja kom átta mínútum síðar og enn var Sævar Þór á ferðinni, nú úr vítaspyrnu. Þorbjörn Atli Sveinsson minnkaði muninn fyrir Fram á 43. mínútu og fékk svo rautt spjald á þeirri næstu og var það strangur dómur. Á síðustu mínútu hálfleiksins gerði Sverrir Sverrisson annað mark sitt og fjórða mark heimamanna. Haukur Hauksson kom inn á og minnkaði muninn fyrir gestina, með sinni fyrstu snertingu á fyrstu mínútu síðari hálfleiksins.
Skagamenn lögðu Breiðablik að velli 3-1. Kópavogsliðið hafði forystu í leikhléi, en tvö mörk frá heimaliðinu litu dagsins ljós í upphafi seinni hálfleiks. Snilldartaktar Ólafs Þórs Gunnarssonar markvarðar komu í veg fyrir að Blikum tækist að jafna metin. Ólafur varði vítaspyrnu frá Kristóferi Sigurgeirssyni undir lokin. Grétar Rafn Steinsson gerði út um leikinn mínútu síðar með góðu marki.
KR-ingar unnu langþráðan og sanngjarnan sigur á Keflvíkingum 2-0. KR eru lausir úr fallsæti og virðast til alls líklegir í næstu leikjum miðað við frammistöðu þeirra í gærkvöld. Einar Þór skoraði fyrra markið og lagði upp það síðara markið fyrir nýja Skotann, Andy Roddie, en hann var valinn maður leiksins.
—
KR - Keflavík 2-0
1-0 Einar Þór Daníelsson
2-0 Andy Roddie
ÍA - Breiðablik 3-1
0-1 Kristján Brooks (29 m.)
1-1 Hjörtur Hjartarson (v) (50)
2-1 Gunnlaugur Jónsson (55)
3-1 Grétar Rafn Steinsson (89)
Fylkir - Fram 4-2
1-0 Sverrir Sverrisson (15)
2-0 Sævar Þór Gíslason (20)
3-0 Sævar Þór Gíslason (28)
3-1 Þorbjörn Atli Sveinsson (43)
4-1 Sverrir Sverrisson (45)
4-2 Haukur Hauksson (47)