Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflavíkur, leist vel á andstæðing liðsins í 2. umferð forkeppni UEFA-bikarkeppninnar en dregið var í keppninni í gær. Keflavík gat mætt fimm liðum, þremur Norðurlandaliðum, Dundee frá Skotlandi og Mainz frá Þýsklandi. Keflvíkingar mæta því síðastnefnda sem er klárlega sterkasta liðið af þeim fimm enda leikur það í efstu deild, Búndesligunni, í Þýskalandi.
“Það verður mikil upplifun að fá að taka þátt í þessu ævintýri,” sagði Guðmundur. “Það er klárt að báðir þessir leikir verða erfiðir, hvort sem er á útivelli eða hér heima.” Aðspurður segir Guðmundur að hann hafi ekki átt neitt óskamótherja áður en drátturinn fór fram. “Það hefði líka verið skemmtilegt að fá FC Kaupmannahöfn og leika á Parken. Þá held ég að okkar stærstu möguleikar að fara áfram hafi legið í að mæta Dundee frá Skotlandi. En þótt Mainz sé mjög sterkt lið byrjar leikurinn í stöðunni 0–0 og það eru ellefu leikmenn í báðum liðum. Það er aldrei að vita hvað gerist,” sagði Guðmundur.
Í fyrstu umferð mættu Keflvíkingar liði Etzella frá Lúxemborg og vann liðið tvo fremur auðvelda sigra og samanlagt 6–0. Árangur var reyndar metjöfnun íslensks félagsliðs í markaskorun í Evrópukeppninni. Þar var það Hörður Sveinsson sem skoraði fimm marka liðsins en þrátt fyrir mörg góð færi virtist Guðmundi hreinlega fyrirmunað að skora í leiknum. “Þetta voru tvö stangarskot og svo smaug boltinn rétt fram hjá í eitt skiptið,” segir Guðmundur. “En leikurinn hér heima gekk ágætlega, sérstaklega í síðari hálfleik.”
Aðeins Guðmundur og Gestur Gylfason hafa tekið þátt í Evrópukeppninni og því er um frumraun annarra í Keflavíkurliðinu um að ræða. “Þetta verður mikil upplifun. Við munum spila á velli í Þýsklandi sem verður notaður á HM á næsta ári og var einmitt notaður í Álfukeppninni nú fyrr í sumar. Þetta er alvöru völlur og ekki væri verra að fá nokkra áhorfendur á leikinn.”
Tekið Af Vísir.is