Þórður ekki skýrt orð sín fyrir Atla
Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari, segir í samtali við Morgunblaðið að Þórður Guðjónsson hafi ekki skýrt við sig orð sín í garð Atla. Hann segir neikvæða umræðu hafa fylgt sér og sinni persónu í gegnum tíðina, og því sé miður. Hann segist vona að neikvæðri umræðu linni, svo allir geti einbeitt sér að því sem máli skiptir, að gera landsliðið sterkara. Fyrir þennan leik komu neikvæð ummæli frá Þórði Guðjónssyni, leikmanni liðsins, og segir Atli það enn verra, því landsliðið verði að starfa sem heild, tapa sem heild og vinna sem heild. Atli segist ekki hafa óskað eftir skýringum frá Þórði, og hyggst ekki gera það. Þegar hann er spurður hvort þetta hafi áhrif á val hans á næsta landsliði segir hann: “Málið er einfaldlega það að ég vel það lið sem ég tel vera það besta hverju sinni.” Hann segir það ekki sjálfgefið að í því séu bestu landsliðsmennirnir, aðeins besta heildin.