Roma virðast hafa gefist upp við tilraunir sínar við að kaupa Gianluigi Buffon, markvörð Parma, eftir að hafa fengið neitun við tilboði þar sem boðið var uppá Hidetoshi Nakata, Antonio Carlos Zago og einn annan ónafngreindan leikmann í skiptum fyrir markvörðin knáa.
“Buffon er ekki til sölu,” sagði Enrico Fedele, talsmaður Parma. “Hann er búinn að neita 33 milljón punda tilboði frá Barcelona og fer hvergi, þrátt fyrir önnur tilboð í svipuðum dúr.”
Þessi þvermóðska Parma manna við að halda í Buffon hefur neitt Rómverja til að leita á önnur mið og nú er peningabudduni snúið í átt að U21 landsliðsmanni Ítala, Ivan Pelizzoli, sem hefur leikið frábærlega með spútnikliði Atalanta í vetur.
Ekki er víst að þeim verði heldur kápan úr klæðinu við að ná í Pelizzoli, því honum segist líða vel hjá Atalanta og þeir hafa beðið hann um að vera áfram hjá félaginu, en vissulega væri það freistandi að fá að spila í Meistaradeildinni.
Við sjáum hvað setur, en ljóst er að markvarslan hjá Rómverjum er veikasti hlekkur liðsins og ætli liðið sér stóra hluti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð, þá verða þeir að halda leit sinni áfram að góðum markverði.