Þórður gagnrýnir störf Atla
Þórður Guðjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, þurfti að verma varamannabekk Íslendinga í leiknum gegn Möltu. Hann segist í samtali við Fréttablaðið eftir leikinn vera mjög ósáttur með stöðu sína í liðinu. “Ég skemmti mér ekki á leiknum, ég get alveg sagt þér það, en sigur vannst. Ég er mjög ósáttur að hafa þurft að sitja á bekknum,” sagði Þórður í samtali við blaðið. Hann segir ennfremur að ef Íslendingar spili gegn Búlgörum eins og á móti Möltu þá munum við steinliggja. “Menn hljóta að fara með öðru hugarfari í leikinn og ætla að gera betur en í dag.” Þá segist Þórður ekki eiga von á því að vera í byrjunarliðinu gegn Búlgörum. “Ég sé enga ástæðu af hverju ég ætti að vera í liðinu miðað við hvernig hann hefur ýtt mér út úr liðinu. Ég er búinn að spila 42 landsleiki og skora 11 mörk og manni er bara ýtt til hliðar eins og ég veit ekki hvað, án skýringa. Ég er mjög ósáttur með stöðu mína í liðinu.” Þegar Þórður segir “hann hefur ýtt mér…” á hann að sjálfsögðu við Atla Eðvaldsson, landsliðsþjálfara.