Óvænt staða er í Símadeild kvenna. Grindavík heldur efsta sætinu eftir þriðju umferðina sem leikin var á mánudaginn. Grindavíkurstúlkur unnu 1-0 sigur á Val og hafa því sigrað alla leiki sína hingað til. ÍBV og Breiðablik mættust í Eyjum, en liðin voru jöfn í 2-3 sæti deildarinnar fyrir umferðina. Það voru Blikastúlkur sem höfðu betur í hörkuleik sem endaði 3-2.
Leikur KR og Þór/KA/KS var ójafn í meira lagi og endaði með stórsigri KR-stúlkna 14-0. Olga Færseth skoraði sex mörk í leiknum gegn Þór/KA/KS og jafnaði félagsmetið sem hún setti í 11-0 sigri gegn Akranesi í fyrra. Annað mark Olgu var 100. deildarmark hennar fyrir KR og þessum áfanga náði hún í 76. leiknum. Olga skoraði á sínum tíma 45 deildarmörk fyrir Breiðablik og hefur þar með skorað 149 mörk í efstu deild. Metið á Ásta B. Gunnlaugsdóttir, 154 mörk, en Helena Ólafsdóttir skoraði sitt 150. deildarmark í leiknum gegn Þór/KA/KS. KR skutust þar með upp í þriðja sæti deildarinnar með betri markatölu en Stjarnan, sem sigraði FH 1-0.
Staðan eftir þrjár umferðir:
1 Grindavík 9
2 Breiðablik 7
3 KR 6
4 Stjarnan 6
5 ÍBV 4
6 Valur 2
7 FH 0
8 Þór/KA/KS 0