Það er óhætt að segja að mikil pressa sé komin á UEFA að hleypa Liverpool FC inn í Meistaradeild Evrópu á næsta ári. Þó er ennþá smá andstaða varðandi það. Að mestu leiti kemur hún frá bitrum bláum helmingi Liverpoolborgar. Af hverju? Það er nú það. Það er ekki eins og að þeim verði hent út í staðinn ef UEFA ákveður að opna auka sæti fyrir Liverpool í keppnina. Lítum nú aðeins á rökin sem þeir sem vilja Liverpool inn í keppnina eru að beita.

Í fyrsta lagi eru flestir sammála því að alls ekki eigi að neita Everton um sitt sæti, sem þeir réttilega hafa náð. Þrátt fyrir það að enska knattspyrnusambandið hafi á síðasta ári úrskurðað það í 8. liða úrslitum Meistaradeildarinnar, þegar Lundúnarliðin tvö Arsenal og Chelsea áttust við, að ef annað þeirra myndi vinna Meistaradeildina og lenda fyrir utan fjögur efstu sætin, þá myndu þeir engu að síður fá sjálfkrafa sæti í deildinni og fjórða liðið myndi þá spila í UEFA keppninni. Allt í einu var þessu breytt. Skrítið?

Ok, Everton endaði í 4. sætinu og á Meistaradeildarsætið skilið. Flest allir af stórlöxum í boltanum segja það fáránlegt ef Liverpool FC fái ekki að verja sinn titil. Sumir vilja halda því fram að svoleiðis lagað sé bara ekkert nýtt af nálinni, og nú sé það orðið svoleiðis að Heimsmeistarar landsliða og Evrópumeistarar landsliða, fá ekki sjálfkrafa sæti í úrslitakeppninni. Það er nýlega búið að breyta því þannig. Málið er bara það að þetta er engan veginn sambærilegt. Heims- og Evrópumeistarar landsliða fá nefninlega tækifæri á að verja titil sinn. Þeir fá að taka þátt í undankeppni þessara keppna og þar af leiðandi fá þeir tækifæri á að verja titilinn sinn. Ef hinir bitru fá sínu framgengt, þá verður það ekki raunin með Liverpool.

Annað mál í þessu er það að ef það lið sem vinnur Meistaradeildina og kæmi frá einhverju öðru landi en Englandi, Spáni og Ítalíu, og myndi jafnframt lenda í 4 sæti eða neðar, þá myndi það lið fá sjálfkrafa sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það er hreinlega verið að refsa Englandi fyrir að hafa staðið sig vel í gegnum tíðina. Sumir hafa komið með mótrök fyrir því að það sé erfitt að henda öðru liði út sökum þessa. Staðreyndin er engu að síður sú að það er til ákveðin formúla sem gerir það að verkum að hægt er að bæta auka liði við í keppnina, ef það myndi gerast að lið frá öðrum löndum en Englandi, Spáni eða Ítalíu myndi vinna Meistaradeildina, en lenda fyrir utan þau sæti sem gefa þátttökurétt.

Menn geta þrefað um sanngirni og ekki sanngirni. Liverpool FC vann Meistaradeildina árið 2005 og á að sjálfsögðu að eiga rétt á því að verja sinn titil eins og aðrir. FA breytti sínum viðmiðum á miðri leið, af hverju í ósköpunum geta UEFA ekki haft alla við sama borð og gert keppnina skemmtilegri að ári?
Pladin1one!!11one!!