Alan Sugar, fyrrverandi stjórnarformaður Tottenham, sá sig í gær knúinn til þess að tjá sig um væl Darren Anderton út í stjórn Spurs, en Anderton er ósáttur við að stjórn félagsins hafi ekki tekist að halda Sol Campbell hjá félaginu og hefur hann hótað að fara frá þeim líka en hann er nefnilega líka samningslaus þótt lítið hafi farið fyrir því enda Anderton ekki merkilegur pappír.
Sugar segir að Anderton eigi að hafa vit á því að halda kjafti og honum væri nær að sýna félaginu sem hafi staðið þétt við bakið á honum undanfarin níu ár smá hollustu.
“Hættu að væla eins og gömul kelling Anderton. Við borguðum laun þín í níu ár og það er kominn tími á að þú sýnir smá hollustu. Spurs stóð fast við hlið þér þegar þú varst meiddur og nú er komið að þér að standa með Spurs.
”Þau níu ár sem hann hefur verið hjá Spurs þá held ég að hann hafi ekki náð einni heilli leiktíð með félaginu án meiðsla. Ég man þó vel eftir því að hann var klár í slaginn fyrir England þegar lærifaðir hans Venables þurfti á honum að halda, skipti þá engu hvort hann væri meiddur.
“Það er satt að lið á borð við Juventus, Milan, Barcelona og Liverpool vilja fá Campbell til sín en ég er ekki viss um það sé sama eftirspurnin eftir þjónustu Anderton.
”Ef það væru einhverjir á eftir Anderton þá geri ég ráð fyrir hörðum slag á milli breskra og bandarískra lyfjafyrirtækja sem myndu vilja fá hann í rannsóknir," sagði Sugar kaldhæðnislega.
Sugar ekki dauður úr öllum æðum.