
Allt annað var að sjá til ÍBV í seinni hálfleik en samt sem áður gekk boltinn illa á milli manna. Þegar skammt var liðið af seinni hálfleiknum meiddist Bjarni Geir Viðarsson illa og þurfti að flytja kappann í burtu með sjúkrabíl. Bjarni Geir snéri öklann illa þegar einn Framarinn sótti að honum og mikil bólga leit dagsins ljós. Alexander Ilic kom inná fyrir Bjarna Geir. Eyjamenn sóttu grimmt á upphafsmínútum seinni hálfleiks en ekki vildi boltinn inn. Það var svo Tómas Ingi Tómasson sem braut ísinn og skoraði fyrsta mark ÍBV í Símadeildinni á þessu sumri og það var sannkallaður þrumufleygur. Eftir markið drógu Eyjamenn sig nokkuð til baka og vörðust vel það sem eftir lifði leiks. Fyrsti sigur ÍBV í Símadeildinni var því staðreynt.
Tómas Ingi hleypir fersku blóði í liðið og á eflaust eftir að styrkja liðið mikið. Framarar þurfa lífsnauðsynlega að fara að krækja sér í stig en stuðningsmenn þeirra þurfa að bíða aðeins lengur því að nú kemur hlé í Símadeildinni vegna landsleikja.
—
Fram - ÍBV 0-1
0-1 Tómas Ingi Tómasson (77)