Fylkisliðið varð fyrir miklu áfalli er fyrirliðinn, Ómar Valdimarsson, sleit hásin í leiknum við Val á Sunnudagskvöldið. Varnarjaxlinn Ómar var skorinn upp í gær af Boga Jónsyni og gekk aðgerðin vel. Ómar má hefja endurhæfingu eftir tvær vikur og en má ekki byrja að skokka fyrr enn í haust. Hann mun því ekki spila meira í sumar og mun skarð hans í vörninni verða vandfyllt en hann lék vel í fyrstu þremur leikjunum.
Ómar, sem er 31 árs, hefur leikið með Fylki frá 1995 en áður lék hann með Selfossi þaðan sem hann er ættaður. Óheppnin elti Ómar í leiknum því í fyrri hálfleik fékk hann gat á höfuðið eftir viðskipti við leikmann Vals.
“Mér fannst eins og það hefði verið sparkað í fótinn á mér þegar ég var hoppa upp í boltann en svo reyndist ekki vera. Hásin gaf sig sem þýðir að ég verð frá í einhverja sjö til átta mánuði. Það er auðvitað mikið áfall að lenda í þessu í upphafi móts.” sagði Ómar í viðtali við Morgunblaðið.