Íslensk lið hafa oftast komist áfram úr 1. umferð í forkeppni meistaradeildar Evrópu. KR sló út Birkirkara frá Möltu á síðasta ári og ÍBV vann SK Tirana frá Albaníu fyrir tveimur árum. KR-ingar eiga ágæta möguleika á að komast áfram því þeir eru í sterkari hóp liðanna 22 í 1. umferðinni. KR-ingar dragast gegn einu af liðunum sem eru í veikari hópnum í drættinum:
Levadia (Eistland), Barry Town (Wales), Araks (Armenía), Bohemians (Írland), Valletta (Malta), Linfield (Norður-Írland), VB Vágur (Færeyjar), Dudelange (Lúxemborg), Shamkir (Azerbaijan), Vllaznia (Albanía) og Zeljeznicar eða Brotnjo (Bosníu)
ÍBV á möguleika á að fá sæti í UEFA-bikarnum í knattspyrnu í sumar þar sem Ísland fékk góða einkunn í háttvísimati UEFA. Tólf þjóðir náðu einkunninni og urðu Hvít-Rússar efstir á listanum en Ísland varð í 11. sæti. Hvít-Rússar fá því sjálfkrafa eitt sæti en dregið verður á milli hinna 11 þjóðanna um tvö sæti í keppninni. Það er því aldrei að vita nema ÍBV spili ásamt Fylki í keppninni.
Vilash hefur keppnisrétt fyrir hönd Azerbaijan í Intertotokeppninni og verður þar með væntanlega mótherji Grindvíkinga í fyrstu umferð keppninnar. Liðin mætast í Grindavík 16. júní og aftur í Azerbaijan viku síðar. Vilash er eins langt í suðaustri í Evrópu og mögulegt er. Lið Vilash hafnaði í þriðja sæti 1. deildarinnar í Azerbaijan, 13 stigum á eftir tveimur efstu liðunum, Shamkir og Neftchi.