Miðarnir á leik Íslands og Danmerkur í undankeppni HM eru að verða uppseldir í forsölu. Leikurinn fer fram 2. september. Miðasala hófst á Esso-stöðvunum í morgun og hafa miðarnir, sem gilda bæði á leikinn við Danmörku og Norður-Írland sem fram fer þann 11. otktóber, rokið út. Að sögn Jóhanns Kristinssonar, sem sér um miðasöluna fyrir KSÍ, er nokkuð öruggt að miðarnir muni klárast í dag.
Aðeins er örlítið af barnamiðum eftir og síðan nokkrir miðar hér og þar, en annars eru þeir allir að klárast. Þess má þó geta að miðar sem eingöngu munu gilda á leikinn við Danmörku verða seldir á leikdag, þann 2. september.