Knattspyrnumaður ársins í Englandi, Teddy Sheringham, skrifaði í dag undir tveggja ára samning við sitt gamla félag, Tottenham Hotspur. Talið er að Sheringham fái 35.000 pund á viku hjá Spurs sem er ekki slæmt fyrir mann sem orðinn er 35 ára gamall.
Sheringham var laus undan samning við Manchester United og því kostaði hann Spurs ekki krónu. United aftur á móti greiddi 3.5 milljónir punda fyrir Sheringham fyrir fjórum árum síðan er þeir keyptu hann frá Tottenham.
“Þetta var stór ákvörðun fyrir mig. Sérstaklega þar sem Ferguson vildi hafa mig áfram hjá United. En ég er ánægður með þau fjögur ár sem ég var hjá United því þau voru stórkostleg. Mér fannst bara kominn tími á að fara eitthvert annað.
”Þegar ég fékk svo tækifæri til þess að koma aftur til þessa frábæra félags þá gat ég ekki sagt nei,“ sagði Sheringham á blaðamannafundi áðan þar sem hann var opinberlega kynntur sem leikmaður Tottenham á ný.
Sheringham er fyrsti maðurinn sem Glenn Hoddle fær til félagsins og hann var vitanlega hæstánægður með að hafa fengið Sheringham heim á ný.
”Teddy er fyrsti maðurinn af nokkrum sem við viljum fá til félagsins. Þetta er ný byrjun hjá honum og ný byrjun hjá félaginu.
“Það sem hann gerði hjá Manchester United var frábært og ég ætlast til þess að hann geri það sama hér hjá okkur.
”Hann er afburðaleikmaður, hann hefur unnið titla og veit hvernig á að vinna þá. Hann er andlega sterkur og það eru nákvæmlega leikmenn eins og hann sem við viljum fá til félagsins.