Martin O´Neill hefur lýst því yfir að hann sé að íhuga lögsókn vegna frétta í enskum fjölmiðlum um að hann hafi átt leynifund varðandi stjórastólinn á Old Trafford.
Breska blaðið The Observer greindi frá því um seinustu helgi að O´Neill og Peter Kenyon yfirstjórnandi United, auk annars fulltrúa frá United, hefðu hist á leynilegum fundi á hóteli í Perthshire, og þar rætt við O´Neill um að taka við af Sir Alex Ferguson, en Írinn þveirneitar þessum sögusögnum.
“Þetta er afar alvarlegt mál. Fyrir það fyrsta er ekki eitt einasta sannleikskorn í þessari frétt í The Observer. Ég er ekki einu sinni með umboðsmann.”
“Ég verð að viðurkenna að það kemur mér mjög á óvart að heyra svona þvælu frá góðu dagblaði, undrandi og svekktur.”
“Ég hef án árangurs reynt að ná sambandi við ritstjóra íþróttadeildar þeirra frá því að fréttin birtist.”