Cristiano Ronaldo fæddist 5.febrúar 1985 á lítilli eyju sem nefnist Madeira og er hluti af Portúgal. Það hefðu fáir reiknað með því að þessi litla eyja sem þekkt er fyrir búskap myndi ala upp knattspyrnumann sem kæmist í fremstu röð. Ronaldo var skýrður í höfuðið á Ronald Reagan þar sem faðir hans hafði mikið dálæti á þeim manni. Ronaldo á einn bróðir og tvær systur.
Á þessari eyju fór mikill tími hjá Ronaldo í að leika sér með bolta og ungur var hann orðinn besti knattspyrnumaður eyjarinnar. Hann var farinn að læra allskonar brögð og lék sér að fullorðnum mönnum eins og ekkert væri, það leið ekki á löngu þar til njósnarar frá stóru liðunum í Portúgal höfðu fundið hann. Þrátt fyrir að Porto og Boavista vildu fá hann þá kom aðeins eitt lið til greina, Sporting Lissabon, liðið sem hann hélt upp á.
Ronaldo fór í gegnum unglingastarf Sporting en var í fyrstu fyrir mikilli stríðni vegna þess hvernig hann talaði en fólk frá Madeira talar með sérstökum hreim. Hann lék síðan sinn fyrsta leik með aðalliðinu 17 ára gamall. Honum var kastað út í djúpu laugina og skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik! Stuðningsmennirnir byrjuðu að dá hann og fljótlega var hann kominn efst á vinsældarlistann. Þeir hrópuðu á aðra leikmenn liðsins að gefa boltann á hann og þegar hann skoraði gegn keppinautunum í Boavista varð aðdáunin á honum engu lagi lík.
Mörg stærstu lið Evrópu voru farin að fylgjast grannt með Ronaldo, þ.á.m. Liverpool og Juventus. Í Evrópumóti U17 landsliða sýndi hann ótrúleg tilþrif og mark hans sparkaði m.a. enska liðinu út úr keppninni. Sporting hafnaði í efsta sæti í Portúgal og Ronaldo talinn framtíð félagsins ásamt Ricardo Quaresma. Hann var sterklega orðaður við Liverpool en á endanum var það Manchester United sem hreppti hann, stór ástæða fyrir því er sá vinskapur sem ríkir milli United og Sporting Lissabon. Vinur Ronaldo hjá Sporting, Quaresma, fór til Barcelona á sama tíma.
Enska pressan sem vanalega er með augun allstaðar var lengi að uppgötva að Manchester United hefði keypt Ronaldo. Hann varð dýrasti táningurinn sem keyptur hefur verið til Bretlands, kostaði 12,24 milljónir punda sem Man Utd borgaði í tvennu lagi. Margir voru efins um þessi kaup og töldu fáránlegt að eyða jafn hárri upphæð í leikmann sem enn hefði ekki sannað sig.
Þeir sem höfðu séð æfingaleik United og Sporting vissu hinsvegar að þarna færi sérstakur leikmaður. Rauðu djöflarnir töpuðu þeim leik 3-1 og var Ronaldo lykilástæðan fyrir því. Leikmenn United báðu Sir Alex Ferguson um að kaupa þennan strák eftir leikinn. Ferguson hafði látið fylgjast með honum nokkrum sinnum en fannst að nú væri rétti tíminn til að kaupa hann, ekki síst vegna þess að önnur lið voru komin ansi nálægt honum.
Það var síðan 12.ágúst 2003 sem Ronaldo var kynntur fyrir fjölmiðlum í Englandi. Hann hélt á búningi númer 7, sama númer og fyrirmynd hans ber… Luis Figo. Hans fyrsti leikur var gegn Bolton og hann byrjaði af krafti! Hann kom inn sem varamaður og þá vissu ekki margir hver hér væri á ferðinni, hann gjörsamlega stal senunni í leiknum og heillaði alla upp úr skónum. Hann gerði vörn Bolton lífið leitt og vann vítaspyrnu verðskuldað. Ný stjarna á Old Trafford var fædd.
Enskir fjölmiðlar líktu Ronaldo við George Best daginn eftir leikinn og kastljósið beintist að þessum unga dreng. Þetta tímabil hjá Manchester United var reyndar vonbrigði í heild sinni þrátt fyrir að liðið hafi landað enska FA bikarnum. Ronaldo var einmitt besti maður vallarins í sjálfum úrslitaleiknum, það efaðist enginn um það að þeim peningum sem eytt var í Cristiano Ronaldo hafði verið ráðstafað á viturlegan hátt.
Nú er Ronaldo, þessi jafnfætti strákur, orðinn fastamaður í portúgalska landsliðinu þrátt fyrir að vera ekki einu sinni orðinn tvítugur. Hann átti frábært Evrópumót í sumar en þar komst Portúgal í úrslitaleikinn og á hann stóran þátt í því. Þá var Ronaldo einnig í portúgalska landsliðinu sem lék á Ólympíuleikunum.
Vissir þú þetta um Ronaldo…?
…þegar hann var lítill patti var Maradona hans helsta fyrirmynd.
…af öllum langar honum mest að hitta Mike Tyson.
…uppáhalds kvikmyndaleikari hans er Jean Claude Vandamme.
…uppáhalds kvikmyndir eru“The Sixth Sense” og “The Rock”.
…uppáhalds leikkona er Angelina Jolie.
…uppáhalds tónlist er danstónlist.
…áhugamál hans eru að fara í göngutúr, kvikmyndir, hlusta á tónlist og eyða tíma með sjálfum sér.
…hann er á lausu!
Cristiano Ronaldo er ein bjartasta von Evrópuboltans… og á bara eftir að verða betri!