Þetta er tekið af www.manutd.is
—————————–
1. Abraham, faðir Malcolm, var hrakinn úr rússneska hernum og flúði til Bandaríkjanna árið 1915. Malcolm þolir ekki að fjölmiðlar minnist á þetta og er þetta mögulega ástæðan fyrir því að hann gefst ekki upp í baráttu fyrr en hann hefur verið gjörsigraður.
2. Abraham lést þegar Malcolm var 15 ára gamall. Hann tók við rekstri föður síns sem hafði gert við úr og vann sjö daga vikunnar. Eftir fimm ár hafði hann komið sér upp höfuðstól og hóf kaup á fasteignum og síðar hjólhýsasvæðum.
3. Þegar móðir Malcolm, Hannah, lést 1980 skildi hún eftir sig eignir sem metnar voru á eina milljón dollara. Málarekstur hófst skömmu síðar þegar Jerome, bróðir Malcolm, lenti í deilum við mág þeirra.
4. Nú, 24 árum síðar, eru deilurnar enn í gangi og málið hefur farið fyrir sex dómara. Glazer sagði systur sínar öfundsjúkar því hann hefði gert móður þeirra ríka. Margt í málarekstrinum er Glazer ekki til framdráttar.
5. Þegar hann var beðinn um málsskjöl kom hann fram með 103 kassa af yfirlýsingum í handahófskenndri röð og það tók fimm manns þrjár vikur að raða þeim saman. Við gagnyfirheyrslu bar hann við vanþekkingu á einföldum viðskiptaatriðum og sagði „ég man það ekki” 250 sinnum.
6. Eitt sinn, þegar andstæðingar Glazer voru farnir úr réttarsalnum, hafði réttarritarinn upp eftir Glazer: „Við verðum að halda þessu gangandi þar til engir fjármunir eru eftir í búinu.” Hann sagðist hafa meint að systur hans ætluðu sér að tæma sjóðinn. Árið 1986 var honum skipað að greiða málskostnað upp á 268.299 dollara því dómarinn sagði að “ítrekaðar tafir hans af ásettu ráði við að afhenda gögn sem rétturinn hefði af eðlilegum ástæðum beðið um” hefðu reynst systrum hans dýrkeyptar.
7. Tekið úr The Guardian: „Á 60 ára viðskiptaferli sínum, þar sem Glazer hefur meðal annars verið í fasteignaviðskiptum, rekstri fiskvinnslu, skyndibitastaða, staðbundinna sjónvarpsstöðva og hjúkrunarheimila, hefur hann lent í nokkrum minni háttar málaferlum. Sum þeirra eru fáránleg, jafnvel á bandarískan mælikvarða.”
8. Fljótlega eftir yfirtökuna á Tampa Bay ásökuðu íbúar á hjólhýsasvæði eignarhaldsfélag Glazer um ólöglega gjaldtöku, þar sem rukkaðir voru 5 dollarar aukalega á mánuði fyrir gæludýrahald og 3 dollarar fyrir hvern auka íbúa hvers hjólhýsis, væru fleiri en tveir á hverju heimili. Glazer hætti gjaldtökunni en ekki fyrr en eftir verulega slæma umfjöllun og hafa verið uppnefndur „Hreysisherrann”.”
9. Á East Avenue og Forest Lawn hjólhýsasvæðunum í Rochester í New York fylki hafa íbúar ítrekað kvartað undan slæmum aðbúnaði. Leigjendurnir, margir hverjir gamlir og fátækir, mynduðu þrýstihóp í baráttunni Glazer.
10. Lögfræðingurinn Paul Marasco tók að sér mál leigjendanna gegn Glazer og hafði betur: „Hann rukkaði íbúana fyrir að vera með gæludýr og jafnvel fyrir að eiga börn. Þetta var kolólöglegt en hann barðist samt til síðasta blóðdropa. Okkur fannst gjörðir hans rangar svo við höfðuðum mál gegn honum og dómstólarnir viðurkenndu rétt okkar. Ég er ánægður með sigur okkar og margir fengu einhverja fjármuni til baka.”
11. Í dag minna hjólhýsasvæði Glazer helst á ruslahauga; gömul leikföng og rusl liggja eins og hráviði um svæðin. Margir íbúar hafa yfirgefið svæðin og þangað sækja eiturlyfjaneytendur, að sögn þeirra sem eftir eru.
12. Carl Feinstock, lögfræðingur í Rochester, fór einu sinni með mál fyrir hönd manns sem slasaðist á hjólhýsasvæði í eigu Glazer: „Hann sinnti ekki viðhaldi. Hann sparaði í rekstrinum á kostnað íbúanna.”
13. Lawrence Conway býr á hjólhýsasvæði í eigu Glazer: „Hann gerir ekkert fyrir okkur,” segir Conway og bendir á að ljósaperur vanti gjarnan á svæðið og fyrirtæki Glazer hafi ítrekað hækkað leiguverð upp fyrir markaðsverð.
14. Eftir að hafa einbeitt sér að fasteignum í upphafi ferilsins, fyrst með kaupum á leiguíbúðum í Rochester, fór Glazer að safna að sér fyrirtækjum á verðbréfamörkuðum á níunda áratugnum.
15. Nokkuð sem einkennir feril Glazer, og endurspeglast í tilraunum hans til að eignast Manchester United, er vilji hans til að taka há lán og reyna að kreista sem mest út úr litlum fjárfestingum.
16. Fyrsta yfirtökutilraun Glazer var árið 1984 þegar hann reyndi að yfirtaka US Conrail sem var gjaldþrota. Tilboð hans hljóðaði upp á 7,6 milljarða dollara þar sem einungis 100 milljónir áttu að koma úr hans eigin vasa. Tilraunir hans til fjármagna afganginn fóru út um þúfur. Merkilegt nokk!
17. Uppistaðan í auði Glazer kemur úr ráðandi hlut í tveimur bandarískum hlutafélögum. Annars vegar eignarhaldsfélaginu Zapata sem George Bush eldri stofnaði en Glazer fjölskyldan á þar 50% hlut og hins vegar Omega Protein sem vinnur fiskiolíur, en Zapata á 60% í því fyrirtæki. Glazer á líka einkahlutafélag, First Allied Corporation, sem hefur fjárfest í auglýsingatengdum iðnaði, til dæmis verslunarmiðstöðvum.
18. Samkvæmt árs gömlum lista tímaritsins Forbes er Glazer í 278. sæti yfir ríkustu menn Bandaríkjanna. Þriðjungur auðs hans er bundinn í Tampa Bay Buccaneers og er liðið metið á ríflega 700 milljónir dollara. Reglur um eignarhald NFL liða meina Glazer að nota félagið sem veð við lántöku og hann hefur heitið því að selja ekki liðið.
Hann er svo sannarlega enginn Roman Abramovich.
19. Árið 1988 keypti Glazer 10% hlut í lítils metnu fyrirtæki að nafni Formica Corporations, og hótaði yfirtöku, áður en hann seldi hlut sinn til einstaklings sem bauð betur. (Heimild: The Guardian)
20. Bandarískur héraðsdómari vísaði frá máli sem Glazer höfðaði á hendur Formica og forstjóra þess, Vincent Langone.
21. Glazer beitti svipuðum aðferðum við Harley-Davidson, mótorhjólaframleiðandann. Þar byggði hann sér upp 6.9% hlut, skapaði sögusagnir um yfirtöku og seldi með hagnaði. Þegar fyrirtækið barðist í bökkum nýtti Glazer hlut sinn til að koma á framfæri óánægju sinni með stjórnendur fyrirtækisins og hótaði óvinveittri yfirtöku. Það hækkaði gengi bréfanna og á sama tíma og sérfræðingar spáðu yfirtöku Glazer, seldi hann allan hlutinn með vænum hagnaði.
22. Harley Davidson fyrirtækið sagðist hafa höfðað mál gegn Glazer. Í máli, sem höfðað var frammi fyrir héraðsdómstólnum í Eastern Wisconsin, er vísað til 13. greinar í tilkynningu Glazer til bandaríska viðskiptaeftirlitsins (SEC), þar sem hann kunngjörir 6,24% eign sína í félaginu, en minnist ekkert á ætlanir sínar um að auka hana í 15%. Glazer er einnig sakaður um að sleppa því að minnast á fyrra brot hans samkvæmt Hart-Scott Rodino reglunum í annarri tilkynningu til SEC, þar sem hann kynnir ætlanir sínar um að eignast 15% hlut í Harley Davidson.
23. Á tíunda áratugnum hagnaðist hann verulega á viðskiptum með áhættuhlutabréf, nokkuð sem krafðist áræðni og útstjónarsemi. Litið var á áhættuhlutabréf sem úrgang frá fjárhagskerfinu eftir runu hneyklsismála og vanskila. Glazer komst að þeirri niðurstöðu að staðan gæti ekki orðið svartari og talið er að hann hafi um það bil tvöfaldað 80 milljóna dollara fjárfestingu sína þar sem efnahagsbatinn var ekki nægur til að öll fyrirtæki gætu staðið í skilum með áhættubréf sín. (Heimild: The Guardian.)
24. Rannsókn bandaríska viðskiptatímaritsins Business Week árið 2004 leiddi í ljós að SEC nefndin hefði rannsakað snöggar hækkanir á verði hluta í bæði Zapata og Omega þar sem verðmæti hlutar Glazer fjölskyldunnar hækkaði um 50 milljónir dollara. Þessar hækkanir urðu um svipað leyti og Malcolm Glazer keypti stóra hluti í Manchester United en engar sannanir fundust um tengsl milli málanna.
25. SEC mun hafa stefnt hinum óþekkta fjárfesti Theodore Roxford sem viðurkenndi að hafa staðið að baki viðskiptum með bréf í Zapata sem leiddu til þess að gengi þeirra hækkaði úr 22 dollurum í nóvember 2002 í 63 dollara 13 mánuðum síðar. Í Omega hækkaði gengi bréfanna úr 6 dollurum í 8. John Held, aðallögfræðingur Omega, hefur viðurkennt að SEC hafi beðið um gögn frá fyrirtækinu seint á seinasta ári.
26. Þegar hann var spurður út í málið sagðist Roxford vinna fyrir hóp fjárfesta sem ættu hlut í Zapata og þegar hann var inntur frekar eftir hvort þessir fjárfestar gætu tengst Glazer fjölskyldunni vildi Roxford ekki neita því.
27. Hvorki Zapata né nokkur úr Glazer fjölskyldunni hafa viljað tjáð sig um rannsókn SEC, nema Avram Glazer (sonur Malcolm) sem sagði hvorki hann né föður hans hafa skipt nokkuð við Roxford.
28. Af hverju myndu fjárfestar eða draugafjárfestar hækka gengi bréfanna þrátt fyrir miklar efasemdir um trúverðugleika meints kaupanda? Sérfræðingurinn Tomothy Ramey segist þess fullviss að bæði tilboðin hafi komið frá „ósvífnum verðbréfabröskurum” í leit að skyndigróða. Fjárfestar gæti síður að sér þar sem „erfitt sé fyrir markaðinn að bregðast ekki við orðinu „yfirtökutilboði”. Viðskipti á hlutabréfamörkuðum séu alltaf byggð á getgátum.”
29. Í annarri málsókn, sem Robert Strougo, hluthafi í Omega höfðaði, var því haldið fram að Glazer fjölskyldan, Avram (sonur Malcolm, framkvæmdastjóri Zapata) og dóttir hans Darcie (forstöðumaður hjá Zapata) hefði brugðist skyldum sínum með því að skoða ekki af alvöru útkaups tilboð sem sent var til Zapata í tölvupósti. Málið fór fyrst í hnút þegar í ljós kom að kaupandinn, samsteypa frá Flórída, var rekin af Theodore Roxford, sem lýsir sjálfum sér sem „listamanni í fyrirtækjasvindlum.”
30. Það er ekki ólöglegt að blása upp gengi bréfa í Bandaríkjanum en ekki er heldur litið á það sem góða viðskiptahætti. Sama má segja um það sem menn kalla „greenmail” þegar menn safna að sér bréfum og hóta tilboði eða mannabreytingum en selja svo með hagnaði.
31. Árið 1995 reyndi Glazer að selja fyrirtæki sem hét Houllihan’s Resturants til Zapata. Glazer átti 73% hlut í Houlihan’s og hefði haft 59 milljónir dollara upp úr viðskiptunum. Tilboðið var dregið til baka eftir málssókn af hálfu minnihluta hluthafa í Zapata sem vildu meina að hann væri að reyna að hagnast á kostnað Zapata.
32. Um miðjan tíunda áratuginn tókst Avram Glazer að sannfæra föður sinn að leika sér með sína eigin lest, vefdeild Zapata sem kallaðist „Zap.com” sem hann lofaði að myndi skila ótakmörkuðum gróða í hinum nýja .com heimi og breyta fiskolíuframleiðandanum Zapata í stórlax á vefnum.
33. Árið 1998 gerði Zapata pappírstilboð (alfarið greitt með hlutabréfum í Zapata) í netgáttirnar Excite og WhoWhere upp á 1,68 milljarða dollara og 400 milljónir. Bæði tilboðin voru send með faxi og umsvifalaust hafnað. Gengi bréfa í Zapata tóku kipp.
34. Vefævintýri Zapata endaði, líkt og hjá fleirum, úti í mýri, en það var ekki alls staðar sem innanbúðarmenn gagnrýndu aðgerðirnar svo harkalega. „(Avram) Glazer vissi ekkert um netið,” segir Marisa Bowe (sjá nánar grein 80). „Markmið hans var að byggja upp Zap og græða síðan á sölu hlutabréfa þegar fyrirtækið færi á almennan hlutabréfamarkað. Avram dreymdi um að verða stórlax í netheimum.” En „nánast súrrealísk vanhæfni” kom í veg fyrir áætlanir hans.
35. Bowe minnist hvernig Avram dýrkaði föður sinn. „Hann er aumkunarverður. Svo mikill pabbadrengur. Þetta er það eina sem hann hefur reynt að gera upp á eigin spýtur og hann hefði ekki getað gert verr. Ég vona svo sannarlega að Manchester United finni einhvern annan.”
36. Zap.com reyndist blóðsuga fyrir Zapata sem átti 98% í netfyrirtækinu. Zapata kennir netrekstrinum um 5,7 milljóna dollara tap á níu mánaða tímabili sem lauk 30. September. Fyrirtækið tapaði 20,3 milljónum dollara, eða 85 sentum á hlut en tekjur þess árið 1999 voru 93,7 milljónir dollara.
37. Eftir hrun Zap.com lenti Zapata í þó nokkrum lögsóknum frá fjárfestum. Lögfræðingurinn Tom Ajamie hafði unnið fyrir Glazer fjölskylduna í sjö ár og hjálpað til við vörn málanna en lét af störfum eftir að Glazer hætti að borga launin hans. „Malcolm Glazer neitaði að hitta mig eða ræða reikningana. Hann vildi ekki segja mér hvert vandamálið væri,” segir Ajamie sem lögsótti fyrrum skjólstæðing sinn. „Hann er eini skjólstæðingurinn sem ég hef þurft að lögsækja.”
38. Árið 2003 reyndi Gates Capital Management, lítill hluthafi í Zapata, að fá stjórnendur fyrirtækisins til að gera það upp, því það hefði ráðist í vonlausar fjárfestingar undanfarin sjö ár á netinu, í áhættubréfum, gjaldsímum, karabískum stórmörkuðum og hjúkrunarheimilum. Tapið nam 45 milljónum dollara en Gates Capital hafði ekki erindi sem erfiði.
39. Ekki er vitað til þess að Glazer hafi nokkru sinni komið til Manchester, hvað þá séð Manchester United spila.
40. Almannatengslafulltrúar Glazer segja að Joel vera aðal knattspyrnuáhugamanninn í fjölskyldunni. Eftir því sem næst verður komist deildi Joel eitt sinn íbúð með stuðningsmanni Tottenham.
41. Í nýlegu samtali við blaðamann í Tampa sagðist Joel hafa „áhyggjur af miðju United.”
42. Glazer fjölskyldan reyndi að kaupa MLS liðið Tampa Bay Mutiny árið 2001 en var ekki tilbúin að borga uppsett verð, 5 milljónir dollara. Liðið varð gjaldþrota skömmu síðar og er ekki lengur til. Mutiny spilaði á Raymond James leikvanginum, þeim sama og Bucs, og hefði Glazer samsteypan haft fullt forræði yfir bílastæðum, úthlutun og tekjum af miðasölu þar sem leikvangurinn hefði verið í hennar eigu.
43. Fyrir þremur árum reyndi Glazer að kaupa svissneska knattspyrnufélagið FC Zürich. „Þegar ég hef tekið yfir ræður enginn annar en ég,” sagði Glazer við forseta félagsins Sven Hotz, sem afþakkaði tilboðið kurteislega.
45. Glazer keypti litla NFL liðið Tampa Bay Buccaneers árið 1995 á 192 milljónir dollara, en það hafði þá verið í mikilli lægð, bæði fjárhagslega og innan vallar. Hans fyrsta verk var að reka þjálfarann.
46. Amerískur fótbolti er afar frábrugðinn enska boltanum en þar bera stuðningsmenn liða mikla virðingu fyrir hefðum og sögu liðanna sem þeir styðja, í Englandi tengjast þau samfélögunum sem þau eru úr og stuðningurinn erfist milli kynslóða. Menn líta frekar á ameríska boltann sem skemmtiatriði, líkt og kvikmyndir, ánægjulega fjölskylduskemmtun.
47. Glazer reyndi að kaupa fjögur önnur bandarísk íþróttalið áður en hann eignaðist Buccaneers.
48. Glazer miðar á hálsæðarnar. Þegar hann bauðst til að kaupa Buccaneers lofaði hann yfirvöldum í Tampa að hann myndi leggja fram helming kostnaðar við byggingu nýs heimavallar. Eftir að hann eignaðist félagið dró hann sig út úr samningnum og gaf yfirvöldum tvö ár til að byggja leikvang ella flytti hann liðið til borgar sem væri tilbúin að verða við kröfum hans.
49. Borgarstjórinn gaf eftir og skattborgarar borga enn hálfs sents söluskatt til að fjármagna byggingu vallarins. Bill Poe, fyrrum borgarstjóri Tampa, segir framkvæmdina hafa kostað borgina alls 400 milljónir dollara.
50. Fljótlega eftir kaupin á Buccaneers seldi Glazer nafnréttinn á leikvanginum til Houlihan’s þó fyrirtækið ræki einungis tvo veitingastaði í Flórídafylki, hvorugan í Tampa.
51. Eftir að byggingu vallarins var lokið móðgaði Glazer nokkra stuðningsmenn Tampa Buccaneers svo hópur af ársmiðahöfum, sem höfðu lengi átt miða, þar sem þeir töldu sig hafa fengið verri sæti við flutninginn og fóru þeir með málið fyrir borgararétt.
52. Svar Glazer var að láta félagið lögsækja stuðningsmennina fyrir meiðyrði. Málið var leyst utan dómssala og hluti af samkomlaginu fólst í því að stuðningsmennirnir fengu að velja sér sæti.
53. Dæmi eins og þetta hafa fengið staðarblaðið Tampa Bay Tribune til að ásaka Glazer um að nota borgina sem „persónulegan ruslahaug.”
54. Mikið hefur verið gert úr þeirri staðreynd að Buccaneers vann Super Bowl titilinn 2003. Fram að því hafði liðið ekkert unnið og hefur ekkert unnið síðan og hefur nú endurheimt stöðu sína sem smálið.
55. Einn titill Glazer bliknar í samanburði við afrek United á 19 ára valdatíma Sir Alex Ferguson.
56. Sumir stuðningsmanna Bucs benda á tilhneigingu Glazer til að skipta sér af málum sem ættu frekar að vera í verkahring. stjórnenda liðsins Tony Dungy, fyrrum aðalþjálfari liðsins, gerði góða hluti en var í vandræðum þar sem Glazer rak sóknarþjálfara hans (David Shula og Les Steckel). Hvað gefur okkur tilefni til að trúa loforðum um að þeir skipti sér ekki af knattspyrnumálum Manchester United?
57. Innan við tveimur árum eftir sigur í Super Bowl hefur Glazer fjölskyldan leitt fall liðsins með röð vafasamra ákvarðana sem hljóta að valda stuðningsmönnum United áhyggum. Hinum sigursæla og vinsæla framkvæmdastjóra Rich McKay var skipt út fyrir Bruce Allen frá Oakland Raiders og mörgum vinsælum leikmönnum var leyft að fara og í þeirra stað komu eldri leikmenn. Úrslitin, eða öllu heldur skortur á þeim, hafa angrað suma stuðningsmenn Bucs sem viðurkenna að United gæti lent í sömu vandræðum ef Glazer eignast félagið.
58. „Ég væri áhyggjufullur ef ég væri stuðningsmaður Manchester United því ég held að hann hafi meiri áhuga á viðskiptum heldur en íþróttinni,” segir Jim Freeman, stuðningsmaður Buccaneers og heimamaður í Tampa. „Hann vill vinna en fyrst og fremst því það eykur verðmæti viðskiptanna. Þeir (Glazerfeðgar) eru í þessu fyrir stoltið og þeira viðskipta sem menn komast í ef þeir eiga NFL lið, það er afar fínn félagsskapur. Þetta snýst um völd. Hvað knattspyrnuna varðar efa ég að þeir hafi meiri áhuga á Manchester United heldur en ég.” (Heimild: Guardian)
59. Glazer hefur hækkað miðaverð á hverju einasta ári síðan hann eignaðist Tampa Bay Buccaneers. Miðaverð Bucs er með því hæsta sem gerist í NFL deildinni, sama hvaða samanburðaraðferð er notuð. „Klúbbsæti”, sem er ársmiði, krefst þess að kaupendur skuldbindi sig til að kaupa þá í tíu ár og vilji menn draga sig til baka áður en áskriftartíminn er liðinn ber þeim að greiða skaðabætur.
60. Öll gjaldtaka á Raymond Jones leikvangnum hefur hækkað verulega, bílastæði, matur, drykkir og merkjavara.
61. Leikmenn Buccaneers hafa þurft að ferðast 100 km á æfingar því æfingavöllur þeirra í Tampa var undirlagður af rottum.
62. Vinna er hafin við nýtt æfingasvæði. Tampa Bay Center, sem lokaði 2002 var ári síðar keypt af First Allied, fasteignafyrirtæki Glazer á 22,8 milljónir dollara. Bucs á rétt á 12 milljónum dollara af sköttum borgarinnar til að byggja nýtt svæði. Borgin heldur því enn að borga brúsann fyrir einkafélagið sem skilar hagnaði.
63. Allen St. John, dálkahöfundir hjá Wall Street Journal, hefur þetta um Glazer að segja. „Hann er frábrugðinn eigendum annarra íþróttafélaga því hann er harður viðskiptajöfur og er stoltur af því. Sumum þeirra finnst nánast óþægilegt að ræða hve mikið þeir hafi grætt á meðan Glazer skammast sín ekki vitund fyrir það. Hann lítur ekki eingöngu á þetta sem íþróttasigra heldur líka viðskiptasigra. Hann er sáttur við að hagnast á einhverju eins og meistaratitli.”
64. Bandarískur dómari sem fór yfir viðskiptahætti Glazer lýsti honum sem „snák í sauðargæru.”
65. Systir hans hafði þetta um hann að segja: „Bretar ættu að gæta sín á honum. Ég held að hann sé ekki hæfur til að eiga jafn sögufrægt lið og Manchester United. Ef hann eignast félagið verður Malcolm sá eini sem hagnast á því.”
66. „Ef hann kæmi hingað myndum við glata öllu.” – Eric Cantona
67. „Ég stend fullkomlega með þeim stuðningsmönnum sem vilja ekki fá hann til félagsins. Ég held að United sé í mjög góðum höndum í dag.” – Ole Gunnar Solskjær.
68. „Við viljum ekki að félagið sé í annarra höndum.” – Sir Alex Ferguson.
69. „Vitaskuld sýnum við samúð með málstað stuðningsmannanna. Eftir því sem ég best veit er ekkert að rekstri félagsins.” – Ryan Giggs.
70. „Margi eru þeirrar skoðunar að hagsmunum félagsins sé best borgið hjá þeim sem hafa alist upp með félaginu og bera hag þess fyrir brjósti.” – Rio Ferdinand.
71. „Ég get ekki sagt mikið um það (tilboðið) en það sem ég get sagt er þetta – Manchester United er stofnun sem er varin af stuðningsmönnum sínum og af stjórninni sem ber hagsmuni þess fyrir leiðarljósi.” – Sir Bobby Charlton.
72. Pat Crerand og Sandy Busby, menn sem skilja hefðir Manchester United, höfðu þetta að segja við Shareholders United: „Barátta ykkar er nauðsynleg.”
73. Richard Caborn, ráðherra íþróttamála í bresku ríkisstjórninni, svaraði fyrirspurn frá þingmanninum Tony Lloyd á þinginu í janúar: „Það gladdi mig að lesa yfirlýsingu forstjóra Manchester United, David Gill, þar sem hann sagði að sú ákvörðun sem tekin yrði myndi endurspegla hagsmuni bæði núverandi og verðandi hluthafa. Mér finnst það lykilatriði fyrir félag eins og Manchester United, sem gegnir ekki bara lykilhlutverki í íþróttinni heldur einnig í samfélaginu.”
74. Bill Poe, fyrrum borgarstjóri Tampa, segir Glazer hafa verið slæman eiganda frá sjónarhóli borgaryfirvalda. Glazer hefur „nýtt sér öll tækifæri sem honum hafa gefist og gefið afar lítið til baka,” segir Poe sem lítið hefur farið fyrir undanfarin tíu ár. „Breska ríkisstjórnin og þegnar hennar hafa reynst Bandaríkjamönnum traustir vinir og bandamenn. Ég er ekki viss um að ég vilji að maður eins og Glazer komi fram fyrir hönd bandarískra viðskipta í Bretlandi.”
75. „Hann (Glazer) er afar aðgangsharður,” segir Tom Ajame, fyrrum lögfræðingur hans. „Hann mun gera það sem hann ætlar sér. Hann er ákveðinn í að eignast Manchester United og mun halda áfram þar til hann hefur verið gersigraður. Hann er harður af sér. Það jákvæða er að hann vill að liðið vinni, það er enginn vafi á því. En hann er rekinn áfram af peningum og það er ekki spurning að hann mun hækka miðaverðið. Hann gerði það hjá Tampa Bay og hann nýtti sér líka allar tilslakanir borgaryfirvalda, skattaívilnanir og aðrar tilslakanir á peningasviðinu. Einu sinni hótaði hann jafnvel að fara með liðið frá borginni sem var virkilega sárt fyrir íbúa hennar því þeir elska liðið sitt. Honum er alveg sama hvort stuðningsmönnunum líkar við hann eður ei. Því get ég lofað. Hann gerir það sem honum sýnist. Skoðanir annarra eru það seinasta sem hann hefur áhyggjur af.”
76. Ajamie stefndi Glazer en sátt náðist áður en málið kom fyrir dóm þar sem lögfræðingurinn fékk 85 sent fyrir hvern dollar sem Glazer skuldaði honum. „Hefði hann beðið um þennan afslátt hefði ég veitt honum hann,” sagði Ajamie og bætti því við að allar meiri háttar samningaviðræður við fjölskylduna hefðu farið í gegnum Malcolm. Aðrir ráðgjafar hafa lýst því að Malcolm stjórni öllu á bakvið tjöldin og synir hans geri aldrei neitt án þess að fá samþykki hans fyrst.
77. „Fjölskyldan var svo náin en hann hakkaði fólkið í sig. Hann sá til þess að menn fóru nær tómhentir heim. Hann vildi frekar eyða peningunum í málskostnað heldur en gefa mönnum svo mikið sem sent. Þetta var ótrúleg grimmd en líka ótrúlega sorglegt,” - systir Glazer um baráttuna um móðurarfinn.
78. „Ekki nokkur maður sem hefur starfað með Glazer hefur gott um hann að segja. Hann getur virkað mjög aðlaðandi en það er allt á yfirborðinu,” segir systir hans.
79. „Malcolm Glazer er ekki maður, hann er dýr. Hann hefur skaðað fjölskylduna svo að mér finnst sárt að nefna hann á nafn. Fyrir mér er hann ekki lengur til.” – Morris Krovetz, mágur Malcolm, sem var giftur Evelyn Glazer og kennir bróður hennar um að hafa eyðilagt líf hennar.
80. Marisa Bowe er fyrrum ritstjóri nettímaritsins Word.com. Hún hitti Avram Glazer fyrst árið 1998 þegar Zapata yfirtók fyrirtækið hennar, eitt af 30 sem varð Zap að bráð. „Hann var hálfviti og ég tilheyri ekki þeim hópi manna sem notar oft orðið hálfviti.”
81. „Á sama tíma og Chelsea hefur tekið Roman Abramovich opnum örmum því félagið var á hausnum þarf Manchester United ekki á Glazer að halda – hann þarf á United að halda. United eyðir þegar milljónum í bestu leikmennina, Rio Ferdinand og Wayne Rooney, og er fjölga sætum á heimavellinum í 75 þúsund til að bregðast við kröfum stuðningsmannanna.” – Sir Bobby Robson í Mail on Sunday.
82. „Það er ekki í þágu félagsins að verða selt til mannsins frá Tampa Bay Buccaneers. Í raun væru það helst Arsenal og Chelsea sem myndu hagnast á yfirtöku Glazer því ég er sannfærður um að United myndi glata forystuhlutverki sínu.” – Bobby Robson.
83. „Mun miðaverð hækka ef Glazer eignast félagið? Fær Old Trafford nýtt nafn eða verður leikvangurinn seldur? Það er allt opið og það veldur áhyggjum. United er meira en bara knattspyrnufélag. Félagið er knattspyrnufélagið í augum tug milljóna manna í öllum heimshornum.” – Bobby Robson.
84. „Það þarf ekki að bjarga United, Glazer mun ekki kæra sig um hefðir United, bara bankareikninginn.” – Bobby Robson
85. Manchester United er einstaklega sigursælt knattspyrnulið og meðal þeirra bestu í Evrópu. United þarf ekki á nýjum eiganda að halda til að ná lengra, sérstaklega ekki manni sem sökkvir félaginu í skuldir til að ná settu marki.
86. Manchester United er fyrirtæki sem gengur vel og skilar hagnaði. Það er þegar ríkasta félag heims (Deloitt & Touche). Til að halda stöðu sinni þarf það ekki á nýjum eiganda að halda.
87. Malcolm Glazer hefur lofað því að „gera Manchester United sigursælt.” NFL liðið hans Tampa Bay Buccaneers varð neðst í deildinni í ár og næst neðst í fyrra. Það hefur orðið einu sinni meistari á þeim átta árum sem Glazer hefur átt það.
88. Manchester United er heimsþekkt nafn í knattspyrnu og íþróttum, Tampa Bay Buccaneers er lítt þekkt utan heimalands og Glazer fjölskyldan hefur alls enga reynslu af rekststri alþjóðlegra fyrirtækja, hvað þá alþjóðlegra íþróttatákna eins og United.
89. Malcolm Glazer hefur ekki lagt annað til reksturs United í gegnum eign sína heldur en óstöðugleika, sögusagnir og truflanir. Hann virðist ákveðinn í að halda til streitu aðgangshörðum og hættulegum viðskipaáætlunum án þess að huga að afleiðingum þeirra fyrir félagið, samfélagið, liðið og stuðningsmennina.
90. Glazer hefur tekið lán fyrir þeim hlutum sem hann er búinn að kaupa, sumir segja þau nema allt að 100 milljónum dollara. Fjölskyldusamsteypa hans skuldar þegar fé áður en tekin eru há lán til að fjármagna tilboðið.
91. Manchester United er skuldlaust félag sem á pening í banka og skilar talsverðum hagnaði ár eftir ár. Glazer myndi taka há lán til að kaupa United og sökkva félaginu í skuldafen sem myndi þýða að félagið þyrfti að tvöfalda hagnað sinn næstu fimm til sjö ár til að geta staðið undir lánunum og gefið Glazer ágóða af „fjárfestingunni.”
92. Þessi þrýstingur á fjárhag United myndi leiða til gríðarlegrar hækkunar miðaverðs á Old Trafford, sölu á réttinum til að nefna Old Trafford, hugsanlegar sölu og endurleigu á leikvanginum og, gangi hlutirnir ekki upp, breytingu á United í risastóran tékka í þágu eins einstaklings.
93. Í versta falli gæti United hrunið undir skuldabyrðinni og endað eins og Leeds United.
94. Ný tilboðsdrög Glazer í febrúar fólu í sér nýja uppröðun skulda með forgangshlutum (sem sumir hafa lýst sem „skuldum í dragi”). Af því tilefni sendi stjórn United frá sér tilkynningu: „Stjórnin telur að eðli og kröfur um arðsemi þessara áætlana setji þrýsting á rekstur Manchester United, sérstaklega ef viðskiptaáætlanir Glazer ganga ekki upp. Stjórnin er enn þeirrar skoðunar að viðskiptaáætlanir Glazer séu ágengar og bein og óbein þensla á viðskiptum gæti skaðað þau.”
95. Glazer kann illa við að vera hafnað. Þegar fyrri tilboðsdrögum hans var hafnað af stjórn United í október 2004 kom hann fram hefndum á aðalfundi United. Hann kaus gegn endurkjöri þriggja stjórnarmanna; lögfræðingsins Maurice Watkins, auglýsingastjórans Andy Anson og forstöðumannsins Philip Yea – sem varð til þess að þeir misstu sæti sín.
96. Meðferð hans á Watkins var einstaklega vægðarlaus þar sem Watkins hafði reitt stuðningsmenn og hluthafa úr þeirra röðum til reiði með því að selja bréf sem enduðu hjá Glazer.
97. Umsátur hans um Manchester United passar vel við fyrri gjörðir að sögn fyrrum bandamanna. „Hann vill halda fólki út á ystu nöf, láta menn geta í eyðurnar,” segir einn þeirra. Aðrir gætu kallað það truflun, leiðir til að skapa óstöðugleika og uppsprettu sífelldra getgáta sem flækja stjórnun félagsins til muna.
98. Áhugi Glazer á Manchester United virðist fyrst og fremst beinast að sjónvarpsréttindum og möguleikum á fjölmiðlun á heimsmarkaði. Það þarf engan snilling til að átta sig á því að endalok sameiginlegs sjónvarpssamnings ensku úrvalsdeildarinnar myndi einungis gagnast United og tveimur öðrum leiðandi úrvalsdeildarliðum, Chelsea og Arsenal.
99. Þörfin fyrir að auka tekjur félagsins til að endurgreiða lán þess gæti - svo kaldhæðnislega miðað við þá ánægju sem stuðningsmenn annarra liða hafa haft af vandræðum United - leitt til gjaldþrots þeirra liða. Tekjur úrvalsdeildarliða af sjónvarpstekjum gætu fallið um 80% eftir tvö ár þegar núgildandi sjónvarpssamningur rennur út og fyrir lið sem skulda meira en 30 milljónir punda myndi það að líkindum leiða til greiðslustöðvunar. Velkomin í veröld stuðningsmanna Leeds United og City!
Listinn var tekinn saman af Shareholders United, samtökum stuðningsmanna Manchester United sem eiga hlut í félaginu. Upprunalega útgáfu á ensku má finna á vef samtakanna www.shareholdersunited.org