Teddy Sheringham gæti tilkynnt það fyrir helgina hvort hann verði um kyrrt hjá Manchester United eða gangi á ný til liðs við Tottenham. Sheringham er sem stendur að vega og meta tilboð frá báðum félögunum og gæti tilkynnt ákvörðun sína eftir vináttulandsleik Englendinga og Mexíkóa á morgun.
Stjóri Tottenham, Glenn Hoddle, hefur lýst yfir áhuga sínum á framherjanum og er reiðubúinn að bjóða honum 2ja ára samning að andvirði £35.000 a viku. Það freistar Sheringham meira heldur en eins árs samningur United upp á £35.000.
“Það gæti gerst eitthvað um helgina, en sem stendur þá hefur ekkert verið ákveðið og hann er enn leikmaður Manchester United,” sagði umboðsmaður Sheringhams, Barry Nevill, um málið.
Enskir fjölmiðlar hafa haldið því fram að Sheringham væri búinn að skrifa undir samning við Tottenham og jafnvel var búist við því að félagið myndi tilkynna um undirritun samningsins í dag. Ekkert hefur þó borið á þeirri tilkynningu.