Fyrstu þrír leikir annarrar umferðar unnust á heimavelli. Fyrsti leikurinn var viðureign Blika og Framara í Kópavogi. Fyrsta markið leit dagsins ljós eftir hornsspyrnu Kristófers Sigurgeirssonar á 17. mínútu og var það Þorsteinn Sveinsson sem skoraði markið með vinstri fæti, óverjandi fyrir Fjalar Þorgeirsson í marki Fram, sem stóð sig ekki sem best í þessum leik. Strekkingsvindur og rigning settu mark sitt á leikinn, sem annars einkenndist af mikilli hörku, en fimm leikmenn fengu að líta gula spjald Braga Bergmanns, dómara. Mark Þorsteins reyndist eina mark leiksins þegar upp var staðið, lokatölur 1:0.
Að Hlíðarenda tóku Valsmenn á móti Grindvíkingum. Í fyrstu umferð unnu Valsarar Fram á meðan Grindvíkingar töpuðu heima gegn Keflvíkingum. Leikurinn var jafn framan af, en lítið markvert gerðist í fyrri hálfleik og var staðan markalaus í hálfleik. Fyrsta og eina mark leiksins kom á 60. mínútu, þegar Matthías Guðmundsson skoraði eftir hornspyrnu Hjalta Vignissonar. Aðeins tveimur mínútum eftir að hann skoraði var honum skipt út af fyrir Svíann Martin Gustavsson. Þetta var annað mark Matthíasar í deildinni og er hann því markahæstur ásamt Hauki Inga Guðnasyni.
Keflvíkingar tóku á móti Fylki úr Árbæ, en bæði lið unnu leiki sína í fyrstu umferðinni. Haukur Ingi Guðnason skoraði fyrsta mark leiksins eftir rosalegan sprett frá eigin vallarhelmingi eftir að Keflvíkingar hreinsuðu frá marki. Haukur Ingi stakk varnarmenn Fylkis af eins og eldibrandur og skoraði fram hjá Kjartani Sturlusyni úr þröngu færi. Leikurinn var bráðfjörugur þrátt fyrir að völlurinn hafi verið mjög blautur og Keflvíkingar komust í 2:0 þegar tuttugu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik með marki frá Guðmundi Steinarssyni eftir að Haukur Ingi hafði átt skot að marki, sem Kjartan varði, en boltinn barst til Guðmunds, sem skoraði í opið markið. Þremur mínútum síðar minnkaði Sverrir Þór Sverrisson metin fyrir Árbæjarliðið með skalla eftir fyrirgjöf frá Sævari Þór Gíslasyni. Lengra komust Fylkismenn þó ekki, og fögnuðu Keflvíkingar sínum öðrum sigri í sumar.
Í Vesturbænum tóku KR-ingar á móti Skagamönnum að viðstöddum tæpum 2000 manns. Skagamenn léku undan hvössum vindi í fyrri hálfleik, sóttu öllu meira en KR-ingar og uppskára meðal annars sláarskot, en viðstöðulaust skot Hjartar Júlíusar Hjartarsonar hafnaði small í þverslá KR á 21. mínútu leiksins. Skagamenn náðu forystu í leiknum með glæsilegu marki Grétars Rafns Steinssonar á 40. mínútu leiksins. Þormóður Egilsson átti þá misheppnaða sendingu fram völlinn og boltinn datt fyrir fætur Grétars, sem hamraði knöttinn í netið af um 25 metra færi. KR-ingar skiptu um leikaðferð í hálfleik, og setti Pétur Pétursson Arnar Jón inn á í stað varnarmannsins Jökuls Elísabetarsonar. Arnar Jón fór inn á miðjuna og Einar Þór fór framar á völlin til Guðmunds og Moussa. KR gerði all svakalega hríð að marki ÍA í upphafi síðari hálfleiks og var boltinn nánast inn í markteig Skagamanna fyrstu 15 mínúturnar. Þá skoraði Einar Þór laglegt mark eftir að hafa náð að snúa af sér vörn ÍA. Boltinn gekk svo liðanna á milli það sem eftir lifði leiks en KR-ingar komust yfir með marki Frakkans Moussa Dagnogo á 83. mínútu.
Í Eyjum áttust við Eyjamenn og FH í hundleiðinlegum leik þar sem nær ekkert markvert gerðist í fyrsta markalausa jafntefli sumarsins. Á 9. mínútu átti Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Eyjamaður, þó sláarskot og skaut þar með leikmönnum Fimleikafélagsins skelk í bringu. Hvorugu liðinu tókst þó að skora í leiknum.