Þrír leikir fóru fram í annarri umferð Símadeildarinnar í knattspyrnu í gær. Blikar unnu Framara 1-0. Nokkuð óvænt úrslit urðu í Keflavík þar sem heimamenn sigruðu Fylki 2:1. Haukur Ingi Guðnason kom Keflvíkingum yfir á 13. mínútu og Guðmundur Steinarsson skoraði annað mark heimamanna á 67. mínútu. Sverrir Sverrisson skoraði eina mark Fylkis á 70. mínútu. Haukur Ingi slapp svo tvisvar sinnum einn á móti Kjartani Sturlusyni en náði ekki að skora.
Valur og Grindavík léku á Hlíðarenda og þar höfðu Valsmenn betur. Matthías Guðmundsson skoraði eina mark leiksins á 61. mínútu. Valsmenn, Breiðablik og Keflavík eru því með sex stig eftir tvo leiki. Þessum liðum var spáð frekar slæmu gengi í sumar en þau ætla sér greinilega að afsanna þær spár.
Umferðinni lýkur í kvöld með tveimur leikjum. KR-ingar fá ÍA í heimsókn í beinni á Sýn og FH mætir ÍBV í eyjum. Sá leikur átti að fara fram í gær en var Frestað.