Árbæingar lögðu KR
Í gærkvöldi hófst Íslandsmótið í knattspyrnu karla í 90. skiptið. Opnunarleikurinn var stórleikur Fylkis og KR og var leikurinn háður í Árbæ. Fylkismenn léku undan strekkingsvindi í fyrri hálfleik og sóttu öllu meira í honum. Þó áttu KR-ingar fyrsta almennilega færið, þegar Arnar Jón Sigurgeirsson skaut rétt yfir markið úr þröngu færi, eftir mikinn hamagang inni á teig Fylkismanna. Skömmu áður hafði Frakkinn í liði KR, Moussa Dagnogo, stimplað sig inn í leikinn með skoti af um 15 metra færi, sem Kjartan Sturluson átti þó ekki í teljandi vandræðum með. Boltinn var mestmegnis á vallarhelmingi KR í fyrri hálfleik og undir lok hans skoraði Vestmannaeyingurinn Steingrímur Jóhannesson fyrir Fylki eftir slæm varnarmistök KR og fóru Fylkismenn með eins marks forskot í hálfleikinn. Síðari hálfleikinn áttu KR-ingar algerlega, sóttu nánast látlaust án nokkurrar uppskeru. M.a. átti Guðmundur Benediktsson skot rétt yfir markið, sem Kjartan Sturluson reyndi ekkert við að verja. Einnig átti Sigþór Júlíusson, sem kom inn á fyrir Einar Þór, oft á tíðum góðar rispur upp vinstri kantinn, en enginn marktæk hætta skapaðist þó. Síðasta kortér leiksins komust Fylkismenn vart yfir miðju vallarins, en niðurstaðan varð samt sem áður 1:0 sigur Árbæjarliðsins.