Tómas Ingi til KR eða ÍBV?
Tómas Ingi Tómasson, leikmaður dansa knattspyrnuliðsins AGF, hefur samið við liðið um að fá að hætta og ætlar sér að spila hér á landi í sumar. Tómas hefur átt við langvarandi meiðsli að stríða og er það ástæða þess að hann hefur lítið sem ekkert fengið að spreyta sig með danska liðinu. Óstaðfestar heimildir segja að hann sé í viðræðum við ÍBV og KR, en hvorki hann né forráðamenn liðanna vildu játa það. Tómas Ingi hefur áður leikið bæði með KR og ÍBV. Hann gekk til liðs við AGF árið 1998 og hefur síðan þá skorað fimm mörk í þrjátíu og sjö leikjum.