Fylkir og Valur mætast í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í knattspyrnu í kvöld og fer leikurinn fram á gervigrasinu í Laugardal kl. 20. Ókeypis er inn fyrir áhorfendur. Áður hafði verið stefnt að því að leika á grasi eftir að Íslandsmótið hæfist en mótanefnd KRR féll frá því. Það eru Fylkismenn ekki sáttir með en þeir vildu að leikurinn færi fram við betri skilyrði.
Þeim finnst vera gert lítið úr þessu móti með því að spila úrslitaleikinn á gervigrasi á sama tíma og stórleikur í Evrópukeppni er á Sýn. “Það hefði verið miklu skemmtilegri umgjörð um leikinn að spila hann á grasi, við hefðum fengið mun fleiri áhorfendur og mótinu sem slíku hefði verið gert mun hærra undir höfði. Það er eins og mönnum sé sama um þetta Reykjavíkurmót og þessi úrslitaleikur þurfi að fara fram sem fyrst til þess eins að ljúka honum af.” sagði Kjartan Daníelsson, framkvæmdastjóri Fylkis, við Morgunblaðið í gær.
Upphaflega átti að spila síðasta laugardag en Fylkismenn báðu um frest þar sem þeir voru að spila í Suðurlandsmótinu á sama tíma. Það var leitað að heppilegum dagsetningum en Valsmenn neituðu alfarið að bíða með leikinn og varð því að spila hann strax.