Fylkismenn fá liðsstyrk Leikmaður frá Trinidad og Tobago, Errol Eddison McFarlane, hefur verið við æfingar hjá Fylki undanfarið. Hann er 23 ára gamall sóknarmaður og á að baki landsleiki fyrir U-23 ára landslið Trinidad og Tobago. Undafarið hefur hann spilað með núverandi meisturum Líbanon, Nejmeh og varð markakóngur í þeirri deild á síðasta tímabili. Hann skoraði þá 21 mark, en liðið allt skoraði 47. McFarlane var til reynslu hjá Sheffield United í fyrra en gekk ekki til liðs við þá, sökum þess að hann hefur ekki leikið neina A-landsliðsleiki fyrir Trinidad og Tobago. McFarlane mun spila með Fylki í kvöld og á sunnudag gegn Þór og ÍR, en leikirnir eru liðir í opna Suðurlandsmótinu og fara fram á Hellu.
Fylkismenn fengu annan erlendan leikmann til reynslu, sá er bandarískur og heitir Joey DiGimarino. Hann er á samningi hjá Bayer Leverkusen og telst ólíklegt að hann muni spila fyrir Árbæjarliðið í sumar þar sem hann hefur verið meiddur undanfarið og gekkst m.a. undir aðgerð undir lok síðasta árs. Það gæti þó vel farið svo að McFarlane verði í leikmannahópi Fylkismanna er þeir mæta Íslandsmeisturum KR þriðjudaginn 15. maí.