Í dag varð það ljóst að KR og FH mætast í úrslitum deildarbikarkeppni KSÍ. FH-ingar sigruðu Skagamenn 5-2. Haraldur Hinriksson skoraði fyrsta mark leiksins og markvörður FH fékk að líta rauða spjaldið. Kári Steinn Reynisson kom Skagamönnum í 2-0. Hann var svo rekinn af leikvelli og því jafnt í báðum liðum. Margar mínútur liðu án marka en Róbert Magnússon og Hörður Magnússon skoruðu á síðustu mínútum venjulegs leiktíma fyrir FH og staðan því jöfn 2-2. Framlengja varð leikinn og þá tóku Hafnfirðingar öll völd. Jón Þ. Stefánsson, Atli V. Björnsson og Björn Jakobsson bættu við mörkum fyrir FH í framlengingingunni og þeir unnu því 5-2.
Í hinum undanúrslitaleiknum áttust við Grindavík og KR og var staðan jöfn, 1-1, í hálfleik, en KR vann síðan leikinn, 2-1. FH og KR leika til úrslita á sunnudaginn. Það verður spennandi að sjá hvernig FH ingar verða í sumar en þeir eru búnir að fá sterka einstaklinga í hópinn fyrir tímabilið og ljóst að stefnan er sett hátt þar á bæ.