Manchester United hefur heldur betur byrjað leiktíðina illa. Í sumar mættu þeir á sterkt æfingamót í Bandaríkjunum með unglingaliðið sitt. Strákarnir stóðu sig ágætlega en þeir voru engu að síður klassa eða tveimur fyrir neðan hin liðin á mótinu, en þau mættu öll með sitt sterkasta lið. Nú þegar fjórar umferðir í ensku deildinni eru búnar og nokkrir sterkir og reyndir leikmenn sem ekki voru með í Bandaríkjunum eru aftur komnir í aðalliðið, hefur United aðeins unnið einn leik og er sjö stigum á eftir toppliðum Arsenal og Chelsea. Er þetta bara óheppni eða eru dagar veldis Rauðu djöflanna taldir?
Það eru aðeins rúm fjögur ár síðan Manchester United varð þriðja félagslið sögunnar til að vinna þrennuna svokölluðu, þ.e.a.s. vinna bæði deildina og bikarinn í heimalandinu og vinna svo Meistaradeild Evrópu. Þá voru leikmenn eins og Peter Schmeichel og Jaap Stam hjá liðinu. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Síðasti deildarleikur United var gegn Everton og endaði hann með 0-0 jafntefli. Í þeim leik voru aðeins tveir leikmenn í byrjunarliðinu sem spiluðu með United þegar þrennunni var hampað, en það voru þeir Gary Neville og Paul Scholes. Meiðsli hafa líka sett fremur stórt strik í reikningnn. Reynsluboltar eins og Ruud van Nistelrooy, Ryan Giggs og Roy Keane hafa lítið eða ekkert getað leikið á þessari leiktíð sökum meiðsla. Sir Alex hefur reynt að sporna við því og fjárfest í nokkrum frábærum leikmönnum s.s. Alan Smith, Cristiano Ronaldo og nú síðast Wayne Rooney. Flestir nýju leikmenn liðsins eru frekar ungir og hafa ekki leikið mikið saman. Liðið er enn að mótast og leikmenn eru að leggja sig fram við að ná þeim takti og festu sem lið þarf að hafa til að ná fram liðsheild. Fótbolti er nefnilega ekki einstaklings íþrótt.
Persónulega hef ég ekki miklar áhyggjur. Í mínum augum er það ekkert stórslys þó að Arsenal eða Chelsea vinni titilinn í ár. Ég hins vegar geri kröfu á að United fylgi og veiti þeim harða keppni. Ég lít þannig á að Ferguson ætli sér svipaða hluti og hann gerði þegar hann byggði upp liðið sem svo vann þrennuna þ.e. að hafa marga unga og gríðarlega efnilega stráka í liðinu sem þjappast saman í eina heild og gjörþekkja leikstíl hvors annars. M.ö.o byggja upp nýtt Manchester United lið. Með ungstirni eins og t.d. Ronaldo og Rooney í bland við reynda refi eins og Scholes, Giggs og van Nistelrooy ætti þetta lið að geta unnið hvaða andstæðing sem er þ.e.a.s. ef Sir Alex Ferguson nær að fínstilla liðið og kveikja í þeim löngun til stórafreka.