Peter Schmeichel lýsti því yfir í gær að hann hefði mikinn áhuga á því að fara út í þjálfun þegar ferli hans sem knattspyrnumanns lýkur. Hann greindi einnig frá því að hann vilji verða framkvæmdastjóri Manchester United í framtíðinni en samt ekki fyrr en eftir 10-15 ár.
“Ég væri til í að vera framkvæmdastjóri Man. Utd. Ég vil verða framkvæmdastjóri og að sjálfsögðu hef ég sett mér takmörk. Þar sem staða framkvæmdastjóra Man. Utd. er sú stærsta í heiminum er það sú sem ég sækist eftir.
”Þó vil ég ekki koma nærri þessu starfi næstu 10-15 árin. Það þarf mjög, mjög sérstakan karakter til þess að stjórna Man. Utd og það að þurfa að fylla í fótspor Sir Alex Ferguson gerir starfið enn erfiðara.
“Eric Cantona gæti haft karakterinn í starfið en ég er ekki viss um það hvort hann hafi áhuga á því,” sagði Schmeichel.