Nyarko hættur!
Alex Nyarko, framherji Everton, segist hafa spilað sinn síðasta leik eftir að hafa lent í vandræðalegri uppákomu í leiknum gegn Arsenal á laugardaginn. Stuðningsmaður Everton, sem var ekki alls kostar sáttur við frammistöðu Nyarko í leiknum, laumaði sér inná völlinn og bauð honum að skipta á svarta bolnum sínum og Everton treyjunni, því hann gæti örugglega staðið sig betur á vellinum. Þrátt fyrir góða aðstoð Tony Adams við að stöðva þennan huggulega stuðningsmann, þá var skaðinn skeður fyrir niðurbrotinn Nyarko sem fór af leikvelli þrem mínútum síðar.
Alex Nyarko kom til Everton frá Lenz fyrir 4,5 milljónir punda síðasta sumar. Hann segir að þetta sé í annað sinn sem þessi sami “stuðningsmaður” Everton móðgi sig í vetur og hann geti ekki hugsað sér að spila fleirri leiki, hvorki fyrir Everton, né nokkurt annað félag.
Alan Myers, talsmaður Everton, er þó vongóður að þetta hafi einungis verið skyndiákvörðun hjá Nyarko, sem hann hafi látið út úr sér í hita leiksins og segir félagið ætla að ræða málin við hann þegar að menn hafa náð sér niður.