Laun leikmanna í ensku úrvalsdeildinni halda áfram að hækka, en meðallaun leikmanns í deildinni eru nú um £400.000 á ári. Chelsea greiða leikmönnum sínum hæstu launin, en áður var það Manchester United. Um 20% hækkun var á laununum í fyrra, samanborið árið 1999. En þrátt fyrir að þetta hafi ekki verið jafnmikil hækkun og árin að undan, heldur endurskoðunarfyrirtækið Deloitte & Touche því fram í ársskýrslu sinni um fjármál ensku úrvalsdeildarfélaganna að þetta sé einungis lognið á undan storminum. “Á þessu ári sem var skoðað komu fram mjög fá merki um stjórnarformenn og stjóra sem voru tilbúnir að standa gegn kröfum leikmanna um hærri laun og það gefur það til kynna að laun leikmanna muni halda áfram að hækka,” segir Gerry Boon, yfirmaður íþróttadeildar Deloitte & Touche, í ársskýrslunni. “Áhrif nýju sjónvarpssamninganna hafa þegar komið leikmönnum og umboðsmönnum þeirra í betri stöðu þegar kemur að samnigaviðræðum.” “Auk þess er líklegt að nýjar reglur Evrópsambandsins um leikmannaviðskipti, Bosman 2, muni hækka laun leikmanna enn frekar, a.m.k. í toppdeildunum.” “Þetta fer af stað eins og snjóbolti, fer stöðugt hraðar og vindur upp á sig. En stjórnarformennirnir geta haft stjórn á þessu, a.m.k. ættu þeir að geta staðið framan í öllum öðrum en helstu stjörnunum.” Chelsea borgar nú £47 milljónir í laun, sem er 56% hækkun frá því í fyrra, en launin hafa hækkað mest hjá Leeds og Sunderland. Launakostnaður Leedsara hefur aukist um 50%, á meðan launakostnaður Peter Reid og félaga meira en tvöfaldaðist, en það má aðallega rekja til þess að liðið komst upp um deild.